Átti ekki von á kallinu og vonar að hún verði með á HM

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði 22-24 fyrir Færeyjum í gærkvöld. Þetta var fyrsti leikur liðanna í undankeppni EM á næsta ári en bæði liðin verða með á HM í Þýskalandi sem hefst í nóvember. Íslenska liðið er nokkuð breytt frá síðustu verkefnum, margir lykilleikmenn hafa lagt landsliðsskóna á hilluna, eru meiddir eða í barneignaleyfi. Lovísa Thompson var nú valin í landsliðið í fyrsta skipti síðan 2022. Hún tók sér tveggja ára pásu frá handbolta og var einnig að glíma við meiðsli en er ánægð að vera mætt aftur í íslensku treyjuna. Lovísa Thompson sneri aftur í íslenska kvennalandsliðið í handbolta eftir þriggja ára fjarveru í gær. Þrátt fyrir tap fyrir Færeyjum er hún ánægð að vera komin í íslensku landsliðstreyjuna á nýjan leik og hún vonast til að vera í lokahópnum fyrir HM. Lovísa viðurkennir að það var strembið að eiga við færeysku sóknina: „Já, það var bara drulluerfitt. Þær eru ótrúlega kvikar og snöggar og gera þetta mjög vel.“ Þrátt fyrir tapið var hún ánægð með að fá aftur landsleik: „Það er bara ótrúlega gaman að koma til móts við liðið og vera komin aftur á parketið með þeim. Langt síðan síðast og ég er svona að fikra mig áfram. Ég er bara búin að fara á tvær æfingar þannig að ég á kannski langt í land með að komast inn í allt systemið.“ Lovísa spilaði nánast eingöngu í vörninni í gær, töluvert breytt hlutverk frá því hún var síðast í landsliðinu. „Ég var alveg smá hissa. En mér finnst samt gaman að spila vörn og ef ég fæ að klukka leikmenn þá er ég frekar góð í því, þó ég segi sjálf frá.“ Hélt að landsliðsferlinum væri lokið Eftir hléið sem Lovísa tók sér frá íþróttinni átti hún ekki beint von á því að spila aftur fyrir Ísland: „Ég verð eiginlega að viðurkenna það að ég bjóst ekkert endilega við því að fá að koma hérna aftur og þess vegna er ég sérstaklega þakklát fyrir það.“ Ísland verður með á HM í Þýskalandi í nóvember og desember og Lovísa vonar auðvitað að hún verði með þar: „Það væri náttúrlega geggjað en eins og ég segi þá þarf þetta nú kannski fyrst að smella saman áður en ég fæ tækifæri til að komast í lokahóp þar. Þannig að ég þarf aðeins að sjá, og Addi [Arnar Pétursson landsliðsþjálfari] líka. Við vinnum þetta saman og sjáum hvað gerist svo, vonandi.“