Erfitt að eyða óvissu um umhverfisáhrif Sundabrautar

Umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar er opin fyrir umsagnir í Skipulagsgátt. Skiptar skoðanir eru um framkvæmdina og hvaða leið skuli farin – brú eða göng. Helga Jóna Jónasdóttir, verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni, segist skilja að fólk hafi sterkar skoðanir því framkvæmdin feli í sér töluvert inngrip í þéttbýli. Vinna þurfi ítarlegar greiningar á áhrifum framkvæmdarinnar á umferð. Sama hvaða lausn verði fyrir valinu verði áhrif á alla umferð jákvæð en brú mæti markmiðum verkefnisins betur. Erfitt að meta öll áhrif á Leiruvog Helga Jóna vonast til þess að álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum liggi fyrir í byrjun árs. Mögulegir neikvæðir þættir séu óvissa um áhrif á náttúru í Leiruvogi og Vegagerðin reyni að líkja eftir þeim með líkönum. „Það ríkir ákveðin óvissa um áhrifin á Leiruvoginn því eina leiðin til að sjá hver áhrifin verða er hreinlega að leggja Sundabraut. [...] Fleiri neikvæð áhrif eru kannski í einhverjum tilvikum á hljóðvist eða loftgæði og síðan að sjálfsögðu eru ásýndaráhrif af hárri brú eða hærri brú tali neikvæð,“ sagði Helga Jóna á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Helga á von á að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir eftir áramót. Þá verði hægt að ráðast í útboðsferli og jafnvel verði hægt að hefja framkvæmdir 2027 og þá gæti Sundabraut verið opnuð 2032. Kostnaður fari eftir því hvaða leið verði valin og þá sé mikilvægt að fyrir liggi að umferð verði næg til að hægt verði að fjármagna framkvæmdina með gjaldtöku. „En við erum að horfa á stærðargráðu sem er á annað hundrað milljarða, en það er ekkert sem bendir til þess að gjaldtakan eigi ekki að geta staðið undir því.“ Sundabraut og umhverfisáhrif framkvæmdanna var til umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun: Verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni segir erfitt að meta fullkomlega umhverfisáhrif við framkvæmdina. Kostnaður verði á annað hundrað milljarða króna.