Framlengdu styrki til einkarekinna fjölmiðla

Kerfið sem hefur verið notað til að styðja við bakið á einkareknum fjölmiðlum verður framlengt um eitt ár. Þetta varð ljóst undir hádegi þegar Alþingi samþykkti frumvarp Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Lög sem styrkjakerfi einkarekinna fjölmiðla byggði á voru tímabundin og féllu úr gildi um síðustu áramót. Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra, hafði kynnt frumvarp um framlengingu styrkja í samráðsgátt stjórnvalda þegar síðasta ríkisstjórn sprakk. Ekkert var því af því að styrkirnir yrðu tryggðir í ár. Logi lagði fram frumvarp um framlengingu styrkjanna á vorþingi en það dagaði uppi þegar samið var um þinglok með afgreiðslu fjögurra þingmála eftir miklar deilur um hækkun veiðigjalds. Frumvarpið var samþykkt með 24 atkvæðum stjórnarliða. 20 stjórnarandstæðingar greiddu ekki atkvæði og nítján þingmenn voru fjarverandi. Með lagasetningunni var hámarksstyrkur einstakra fjölmiðlafyrirtækja lækkaður úr 25 prósentum í 22 prósent. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verður frumvarp um endurskoðaðan stuðning við einkarekna fjölmiðla lagt frma í janúar. Lög um stefnumörkun í húsnæðis- og skipulagsmálum, samgöngum og byggðamálum voru einnig samþykkt.