Evrópudómstóllinn úrskurðaði í dag að hundur sem geymdur er í farangursgeymslu flugvélar teljist til farangurs og því þurfi flugfélög ekki að greiða hærri bætur ef dýrið týnist. Upphaf málsins er rakið til deilu fyrir spænskum dómstól milli spænska flugfélagsins Iberia og farþega sem átti hund sem týndist á ferðalagi frá Buenos Aires til Barcelona fyrir sex árum. Hundurinn var settur í farangursrýmið vegna þess hversu stór hann var og þungur. Hann slapp á leiðinni út í flugvél og hefur ekki fundist. Eigandi hundsins krafðist fimm þúsund evra í skaðabætur, jafnvirði rúmlega 73 þúsund króna. Flugfélagið viðurkenndi ábyrgð en hélt því fram að bæturnar ættu að takmarkast við þá upphæð sem greidd væri út fyrir innskráðan farangur í samræmi við Montreal sáttmálann, sem fjallar um skaðabótaskyldu flugfélaga. Spænski dómstóllinn vísaði þeim hluta málsins til Evrópudómstólsins sem féllst á málflutning Iberia. Í úrskurði Evrópudómstólsins segir að merking orðsins farangur geti náð yfir gæludýr líka þótt flestir telji orðið aðeins ná yfir dauða hluti. Gæludýr geti talist til farangurs í skaðabótamálum að því gefnu að velferð dýrsins sé tryggð á meðan á flutningi stendur. Farþeginn hefði getað borgað aukagjald fyrir flutning hundsins og þannig átt möguleika á hærri skaðabótum. Það hafi hann hins vegar ekki gert.