Forsætisráðherra: „Ég held að það verði enginn íslenskur her á minni lífstíð“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segist ekki telja að Íslendingar eignist her á hennar lífstíð. Hún sat fyrir svörum ráðstefnugesta fyrr í dag á Hringborði norðurslóða, Arctic Circle, sem fram fer í Hörpu. Þetta er í ellefta sinn sem ráðstefnan er haldin í Reykjavík. Forsætisráðherrann segir Íslendinga geta áorkað meiru með aukinni fjármögnun til Atlantshafsbandalagsins og annarra innviða og með því að vera gistiríki fyrir aðrar þjóðir heldur en með því að byggja hagkerfi sitt alfarið á herrekstri. Hvað er gistiríki? Af vef utanríkisráðuneytisins um gistiríkjastuðning: „Frá 2006 hefur beint framlag Íslands til starfsemi Atlantshafsbandalagsins í formi svokallaðs gistiríkisstuðnings aukist. Gistiríkisstuðningur felst einkum í að veita færanlegum liðsafla bandalagsríkja, sem sinna mismunandi verkefnum á sviði loftrýmisgæslu, kafbátaeftirlits og varnaræfinga, aðstöðu á borð við fæði og gistingu. Stjórnvöld tryggja jafnframt að til staðar séu fullnægjandi varnarmannvirki, búnaður og kerfi, geta og sérþekking svo Ísland geti tryggt framlag sitt í formi gistiríkisstuðnings og þar með unnið í samræmi við áherslur í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.“ Ekki tækt að byggja efnahagskerfi landsins í kringum herrekstur Trine Jonassen, fréttastjóri norska fjölmiðilsins High North News, spurði Kristrúnu að því hvort satt reyndist að til umræðu væri að stofna íslenskan her. Kristrún sagðist hafa orðið var við umræðuna en að hún endurspegli hvorki áherslur né áform ríkisstjórnarinnar. „Í fullri hreinskilni, og ég get að vísu ekki talað fyrir alla íslensku þjóðina, held ég að allir séu ánægðir með núverandi stöðu mála hvað varðar viðveru okkar og öryggi. Ríkisstjórnin er það líka,“ svaraði Kristrún. Hún bætti því við að tækifæri séu fyrir Íslendinga til að leggja meira til varnarmála. Ísland verði að vinna með sína eigin styrkleika. Forsætisráðherra segir Íslendinga geta lagt meira til öryggismála með því að leggja fjármagn til Atlantshafsbandalagsins og að vera gistiríki fyrir aðrar þjóðir. Það skili meiri árangri en stofnun íslensks hers. „Persónulega held ég að við getum gert meira með fjármögnun, hvort sem það er fjármögnun NATÓ, annarra innviða eða hvaðanæva, og með því að styrkja stöðu okkar sem hernaðarlega mikilvæg staðsetning og sem gistiríki, heldur en með því að byggja allt efnahagskerfi lands með fjögur hundruð þúsund þegna í kringum herrekstur.“ Það er hennar tilfinning að önnur ríki séu meðvituð um þessa áherslu Íslendinga. „En þetta verður ekki allt í mínum höndum vegna þess að vonandi verð ég ekki í þessu hlutverki það sem eftir er af ævi minni. En ég held að við eigum ekki eftir að sjá íslenskan her á minni lífstíð. Það kemur í ljós.“