Mikkel Hansen þekkja flestir Íslendingar enda hefur hann verið horn í síðu íslenska landsliðsins í handbolta í leikjum gegn Danmörku síðustu áratugi. Sítt hár hefur lengi verið eitt helsta einkenni Hansens en hann hefur nú látið lokkana fjúka. Þetta gerði hann til að vekja athygli á baráttu fólks við krabbamein. Í myndskeiði sem birtist á Instagram-síðu leikstjórans Naghmeh Pour sést Hansen raka af sér hárið með rafmagnsrakvél. Meðan hann gerir það segir hann nöfn fólks sem glímir við krabbamein og myndbandinu lýkur með „fyrir pabba“.