Illa staðið að smíði Titans og eftirlit ófullnægjandi

Kafbáturinn Titan, sem fórst undan ströndum Nýfundnalands fyrir tveimur árum var hvorki vel hannaður né smíðaður, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar . Allir sem voru um borð létust. Fimm voru um borð í Titan, kafbáti úr smíðum fyrirtækisins Oceangate, þegar haldið var í köfunarleiðangur að flaki skipsins Titanic á hafsbotni undan ströndum Nýfundalands í júní árið 2023. Meðal þeirra var Stockton Rush, einn stofnenda Oceangate, og er talið að þeir hafi látið lífið samstundis þegar kafbáturinn féll saman. Í skýrslu bandarískrar nefndar um samgönguöryggi segir að hönnun og smíði á Titan hafi verið ófullnægjandi. Frá því að hann var smíðaður árið 2018 fór Titan í nær 90 köfunarferðir. Í skýrslunni kemur fram að við köfun 80 hafi kafbáturinn orðið fyrir skemmdum, sem leiddu til þess að hann varð viðkvæmari fyrir þrýstingi. Oceangate hélt þó sínu striki. Titan var áfram notaður og varð aftur fyrir skemmdum í köfun 82. Prófanir og eftirlit Oceangate hafi verið ófullnægjandi og því hafi fyrirtækið ekki áttað sig á ástandi Titans og þeirri hættu sem af því stafaði. Það hafi farið versnandi með hverri ferðinni þangað til haldið var í leiðangur 88, sem reyndist hinsta ferð Titans.