JH: Hinn hægláti

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar: Jóhann Helgason á einstakan sess í íslenskri tónlistarsögu og er sannarlega einn af þeim stóru eins og segir í laginu. Höfundur margra sígildra laga, frábær söngvari og annar hluti eins best þokkaðasta tónlistardúetts sem við eigum. Ára Jóhanns hefur alla tíð verið bundin dulúð, hann þótt fámáll en þagnarsveipurinn undirstingur um leið ákveðinn svalleika að hætti George Harrisson t.d.. Mottan stórkostlega hjálpar líka upp á þetta að gera. Jóhann hefur alltaf verið kúl. Gagnrýnandi hefur tekið við hann viðtöl nokkrum sinnum og þá hefur reyndað kjaftað í honum hver tuska. Ég hlustaði líka, í undirbúningi þessara skrifa, á Mannlega þáttinn á Rás 1 þar sem hann og Edda Borg mættu í spjall og þá lá hann ekki á liði sínu, var upplýsandi og hláturmildur. Þannig að, aldrei skyldi setja fólk í einhvern kassa eins og sjá má. Platan nýja heitir einfaldlega JH og var tekin upp ásamt sveitinni Gömmum í Hljóðrita. Guðm. Kristinn Jónsson, Kiddi Hjálmur, tók upp og hljóðblandaði. Lögin eru tíu og öll ný. Platan er hæglætisverk mætti segja, svo ég spegli bæði titil og innvols höfundar. Jóhann hefur komið að alls kyns poppi í gegnum tíðina, stuði, ballöðum og öllu þar á milli, en þessi hallar sér vel að blíðu rennsli. Upphafslagið, „Don‘t Get Me Wrong“, er í áttunda áratugs fasa, flottur blástur um miðbikið, falsettusöngur og bara gott grúv. Og visst tímaleysi yfir því. Það heyrist aukinheldur að sá er semur kann að setja saman dægurlög. „Don‘t Hand Me A Line“ er rólegra, snotur smíð og umvefjandi. Þannig vindur plötunni áfram og þetta eru þægileg og áferðarfalleg lög frá sönnum poppvölundi. „All I Want“ er sérstaklega vel heppnað, smá kenjótt en hljómar um leið eins og það hafi alltaf verið til. Viðlagið stórgott og eftirminnilegt. Alvöru „krókur“ þar. Jóhann fer líka lítið eitt út fyrir vestræna módelið og „Moments“ er þannig með suðrænum brag. Lögin eru vissulega miseftirtektarverð en það er enginn „hundur“ hérna eins og ég kalla það. Heildarsvipurinn er góður og sannfærandi, spilamennska fumlaus og fagmannleg, nema hvað, og verkið stendur æði vel þegar allt er saman tekið. Arnar Eggert Thoroddsen er doktor í tónlistarfræðum frá Edinborgarháskóla og aðjúnkt í fjölmiðlafræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um tónlist í íslenskum fjölmiðlum um áratugaskeið.