Töluverðar röskun gæti orðið á flugi í næstu viku komi til verkfalls flugumferðarstjóra. Forstjóri Icelandair segir félagið hafa lítið svigrúm til að bregðast við verkfallinu. Langur fundur er til marks um að það sé enn eitthvað að tala um, segir formaður Félags flugumferðarstjóra. Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra segir: „Það var engin formleg niðurstaða, það var bara svona einhver smávægileg heimavinna fyrir báða aðila fyrir morgundaginn., og annar fundur boðaður klukkan eitt.“ Deilurnar stranda á launaliðnum. Arnar segir flugumferðarstjóra ekki biðja um hækkun umfram það sem gerist á almennum markaði. „Við erum ekki tilbúin að taka því að hækkanir sem við erum með og áunnin réttindi sem við erum með í launatöflunni okkar, að þau séu notuð, gegn okkur núna.“ Röskun á flugi ef til vinnustöðvunar kemur Flugumferðarstjórar hafa boðað fimm vinnustöðvanir, þá fyrstu á sunnudagskvöldið, frá 22 til 3. Frekari aðgerðir eru boðaðar fjóra daga í næstu viku. Neyðarflug og flug landhelgisgæslunnar sé undanþegið. Áhrifin séu fyrst og fremst á farþegaflug. Áætlað er að tíu farþegaflugvélar lendi á Keflavíkurflugvelli á þessum tíma. Sex þeirra eru á vegum Icelandair. Truflandi áhrif á starfsemi Icelandair Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair segir slíkar aðgerðir alltaf hafa truflandi áhrif á starfsemi félagsins og valda kostnaði. „Þeim er alltaf beint fyrst og fremst að Icelandair, þó það séu tæplega 30 flugfélög sem fari um völlinn.“ Bogi segir jákvætt að verið sé að funda því félagið hafi ekki mikið svigrúm til að bregðast við verkfalli flugumferðarstjóra. „Flugreksturinn er krefjandi núna. Mörg flugfélög fara í gjaldþrot hér á Íslandi, það síðasta í þessum mánuði.“ Icelandair er ekki aðili að samningum flugumferðarstjóra en samningar Icelandair við flugmenn og flugliða eru einnig lausir. „Þannig að við í sameiningu, félagið og flugstéttirnar, verðum að ná saman um skynsamlega samninga sem allra fyrst,“ segir Bogi. Segir flugumferðarstjóra ekki einblína á Icelandair Arnar hafnar því að aðgerðirnar beinist sérstaklega að Icelandair og bendir á að verkfallið á sunnudagskvöldið sé aðeins eitt af fimm: „Það eru mismunandi tímasetningar og dagsetningar og mismunandi svæði undir hverri vinnustöðvun þannig að þessu er ekki beint að einhverjum einum frekar en öðrum.“ Röskun verður á farþegaflugi í næstu viku náist ekki samkomulag í kjaradeilu flugumferðarstjóra. Flugumferðastjórar funda áfram á morgun hjá ríkissáttasemjara.