Landsréttur hefur staðfest farbann yfir sambýliskonu og barnsmóður veitingamannsins Quang Lé. Konan er grunuð um mansal, skjalafals, peningaþvætti, ólöglega sölu dvalarleyfa og brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Konan skaut málinu til Landsréttar og krafðist þess að farbannið yrði fellt úr gildi eða stytt. Landsréttur féllst ekki á það og mun hún að óbreyttu sæta farbanni fram í janúar. Vísir greindi fyrst frá. Quang, bróðir hans og sambýliskona voru öll handtekin í tengslum við umfangsmestu mansalsrannsókn Íslandssögunnar. Þau voru látin laus úr gæsluvarðhaldi í júní á síðasta ári en voru úrskurðuð í farbann meðan á rannsókn málsins stendur. Miklar líkur á að konan myndi fara aftur til Víetnam Farbann er þvingunarráðstöfun og má ekki standa lengur en nauðsynlegt er miðað við eðli og umfang máls. Þá er einnig skilyrði fyrir beitingu farbanns að rannsókn sé án tafa sem ekki verða réttlættar. Í ákvörðun Landsréttar segir að ekki sé talið að dráttur hafi orðið á rannsókninni í ljósi þess hve umfangsmikil hún og meint brot eru. Meðal annars sé mikil þýðingarvinna fyrir höndum í ljósi þess að flest samskipti sakborninganna eru á víetnömsku. Í hinum staðfesta úrskurði segir að það kunni að spilla fyrir rannsókn málsins ef ekki er unnt að tryggja nærveru konunnar hér á landi. Konan sé með mikil tengsl við fæðingarland sitt, Víetnam, hvar fjölskylda hennar er búsett. Verulegar líkur séu því á að hún myndi reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málsókn eða refsingu með einhverjum hætti. Unnu allan ársins hring með 250 þúsund í mánaðarlaun Fram kemur að starfsmenn Quang Lé hafi lýst því í skýrslutökum að þeir hafi fengið 250 þúsund á mánuði í laun, en á blaði fengið 420 þúsund. Þau hafi þurft að afhenda Quang Lé, sambýliskonu hans eða öðrum sem störfuðu fyrir hann allt umfram 250 þúsund krónurnar. Þau hafi fengið þær skýringar að fjármunirnir færu í að greiða skatta eða rekstrarhalla fyrirtækjanna. Þá lýsti starfsfólkið því að þau ynnu að lágmarki 12 klukkustunda vinnudaga 6-7 daga vikunnar, allt árið um kring án möguleika á sumarfrí Flestir brotaþolar í málinu lýstu því að hafa greitt Quang Lé um 8 milljónir króna fyrir útvegun dvalar- og atvinnuleyfis og fylgigagna. Öll fengu þau atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar en flest þeirra könnuðust ekki við prófskírteini og önnur gögn sem fylgdu dvalar- og atvinnuleyfisumsóknum þeirra. Er Quang Lé því einnig grunaður um að hafa framvísað fölsuðum gögnum.