Margar ríkisstofnanir í Bandaríkjunum hafa verið lokaðar í rúmlega hálfan mánuð. Repúblikönum og demókrötum kemur ekki saman um bráðabirgðafjárlög sem þarf til að fjármagna stjórnkerfið. Samkvæmt nýrri könnun AP-fréttastofunnar segja um sjötíu prósent Bandaríkjamanna báða flokka bera að minnsta kosti nokkra sök á ástandinu. Yfir milljón manns í ólaunuðu leyfi eða fá ekki borguð laun Lokunin tók gildi á miðnætti 1. október, þegar fjárhagsárinu lauk, og hefur því staðið í tæplega sextán daga. Repúblikanar og Demókratar gátu ekki komið sér saman um að samþykkja bráðabirgðafjárlagafrumvarp um áframhaldandi fjármögnun ríkisstofnana. Tæplega ein og hálf milljón ríkisstarfsmanna í Bandaríkjunum er því annaðhvort í ólaunuðu leyfi eða í vinnu án þess að fá borguð laun. Lokanirnar geta haft áhrif á þjónustu stofnana eins og þeirrar sem sér um úthlutun námslána, leikskóla sem eru fjármagnaðir af alríkinu, ýmissa þjóðgarða og safna. Smithsonian-stofnunin hefur til að mynda þurft að loka öllum sínum söfnum, rannsóknarstofnunum og dýragarðinum í höfuðborginni Washington D.C. Lokarnir geta haft áhrif á stofnanir sem veita lágtekjufólki mataraðstoð og orðið til þess að nýjar umsóknir um bótagreiðslur verði ekki samþykktar. Ýmis starfsemi á vegum ríkisins sem telst nauðsynleg verður áfram opin og starfsfólk þarf að mæta til vinnu þótt það fái ekki borguð laun. Þetta eru til dæmis spítalar og lögregla, landamæragæsla, flugumferðarstjórn og hermenn sem sinna herskyldu. Flugumferðarstjóri sem CBS-sjónvarpsstöðin talaði við segir lokunina setja meira álag á starfsmanninn. „Starfið sem slíkt er nógu streituvaldandi og svo bætast við áhyggjur af því hvenær launin verða greidd.“ Stofnanir sem sjá um almannatryggingakerfið og örorkubætur verða áfram opnar. Líklegt þykir að forsetinn setji starfsemi innflytjendastofnunar Bandaríkjanna, ICE, undir þennan hatt líka, enda hefur hann sett innflytjendamál á oddinn. Fyrsta skipti í sjö ár sem ríkisstofnanir loka Þetta er í fyrsta skipti í sjö ár sem bandaríska þinginu hefur ekki tekist að tryggja fjármagn til að halda rekstri ríkisstofnana áfram. Frá 1980 hefur 15 sinnum þurft að loka ríkisstofnunum. Lokanirnar hafa yfirleitt staðið í örfáa daga. Síðast gerðist þetta í desember 2018, á fyrsta kjörtímabili Donalds Trumps í embætti forseta. Þá voru ríkisstofnanir lokaðar í 34 daga, sem er lengsta lokun í sögu Bandaríkjanna. Engin lausn í sjónmáli Ekkert bendir til þess að lausn sé í sjónmáli og ásakanir um hverjum sé um að kenna ganga á víxl milli Repúblikana og Demókrata. Repúblikanar lögðu frumvarpið um bráðabirgðafjárlögin fram til kosningar í tíunda skiptið í dag. Eins og í hin níu skiptin var það ekki samþykkt. „Svo að í dag finna bandarískar fjölskyldur enn eina ferðina fyrir fjárhagslegu og persónulegu álagi vegna þessarar óábyrgu ákvörðunar sem kollegar okkar Demókratar streitast við að taka,“ sagði Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, á blaðamannafundi í dag. Hann sagði Demókrata vilja að ríkisstarfsemi liggi niðri, „og skeyta engu um sársaukann sem þeir valda.“ Hakeem Jeffries, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeild, svaraði kollega sínum fullum hálsi á blaðamannafundi sem Demókratar héldu síðdegis og sakaði Repúblikana um löggjafarbrjálæði. „Flokkspólitísku fjárlögin, sem rústa heilbrigðiskerfi amerísku þjóðarinnar, hafa nú verið hrakin til baka í tíunda skiptið. Samt halda öldungadeildarþingmenn Repúblikana uppteknum hætti og vænta þess að niðurstaðan verði önnur. Það er dæmigerð skilgreining á löggjafarbrjálæði.“ Samkvæmt nýrri skoðanakönnun AP-fréttastofunnar telja um sex af hverjum tíu fullorðnum Bandaríkjamönnum að Donald Trump og Repúblikanar á þingi beri talsverða eða umtalsverða ábyrgð á lokun ríkisins. Yfir helmingur segir það um Demókrata. „Það má nefna að um sjö af hverjum tíu Bandaríkjamönnum telja að hvor þessara hópa um sig beri í það minnsta nokkra sök á hléinu á útgjöldum ríkisins. Þannig að Bandaríkjamenn telja að báðir flokkarnir beri ábyrgð,“ segir Linley Sanders, sérfræðingur í skoðanakönnunum hjá AP. Meiri áhrif eftir því sem lokunin dregst á langinn Friðjón R. Friðjónsson, sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum, segir hinn almenna Bandaríkjamann, sem býr ekki í höfuðborginni, ekki finna mikla breytingu á sínu daglega lífi. „Lykilstofnunum er haldið gangandi en það sem gerist þegar fólk fær ekki launin sín er að það mætir síður til vinnu, skráir sig inn veikt og svo framvegis. Eftir því sem það dregst á langinn þá fer fólk að finna meira fyrir þessu.“ Rúmlega milljón manns sem starfar fyrir ríkisstofnanir í Bandaríkjunum er launalaus eða fær ekki greitt fyrir vinnuna sem unnin er. Ekkert gengur að ná samkomulagi um bráðabirgðafjárlög. Friðjón nefnir dæmi um innanlandsflugið, þar eru byrjaðar að koma fram seinkanir. Ein stærsta ferðahelgi ársins í Bandaríkjunum er fram undan. Milljónir Bandaríkjamanna ferðast þvers og kruss um landið yfir þakkargjörðarhátíðina sem er í lok nóvember. „Áhrifin verða alltaf meiri og meiri.“ Margir eru launalausir sem er ekki hvetjandi. „Fólk þarf að lifa og borga leigu og kaupa í matinn.“ Friðjón telur Trump Bandaríkjaforseta vera að nota lokunina að hluta til til að ná pólitískum markmiðum. „Síðasta föstudag sagði hann upp fjögur þúsund starfsmönnum hjá alríkinu.“ Trump sýni heldur ekki jafnræði í hvaða stofnanir fái fjármagn og hverjar ekki. „Það voru fréttir núna í dag að skrifstofa sem sér um að útvega getnaðarvarnir til fátækra, hún er alveg lokuð. Þannig að það eru ýmsir þættir sem verða öðruvísi undir.“ Ekkert bendi til þess að Repúblikanar og Demókratar séu að ná samkomulagi. Öldungadeild þingsins fer í frí á morgun og kemur ekki saman fyrr en eftir helgi þannig að lokunin verður að minnsta kosti sú næstlengsta í sögunni. „Það komu smá skilaboð frá leiðtoga Repúblikana í öldungadeildinni, John Thune, síðdegis um að það væri einhver von en það er ekkert að fara að gerast fyrr en einhvern tímann í næstu viku.“