Konur hvattar til leggja niður störf allan daginn

Konur eru hvattar til þess að leggja niður störf allan daginn í kvennaverkfallinu þann 24. október næstkomandi. „Í ár förum við í kvennaverkfall allan daginn,“ segir Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir Straumland, verkefnastýra kvennaárs og kvennaverkfallsins. „Eins og það var árið 1975, fyrir fimmtíu árum þegar við fórum fyrst í verkfall.“ Komið verður saman fyrst við Sóleyjargötu klukkan 13:30 og haldið þaðan á baráttufund sem fram fer á Arnarhóli. „Við gerum ráð fyrir því að þær konur og þau kvár sem geta séu í verkfalli allan daginn og að strákarnir beri byrðarnar sem þarf að bera,“ segir Inga Auðbjörg. Hún segir skilning fyrir að ekki geti allar konur og öll kvár verið frá vinnu þennan dag og hvetur hún þau til að taka þátt á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #ómissandi. Konur og kvár um allt land eru hvött til að leggja niður störf og taka þátt í kvennaverkfallinu allan daginn 24. október. Verkefnastýra verkfallsins vonast til að karlmenn landsins axli ábyrgð og sýni stuðning í verki. Blásið verði til sérstakrar hátíðardagskrár þar sem í ár er stórafmæli kvennafrídagsins. „Það eru fimmtíu ár síðan konur lögðu fyrst niður störf í kvennaverkfallinu 1975 og núna ætlum við að blása til baráttuhátíðar þar sem við gerum sögunni í kvennabaráttunni sérstök skil,“ segir Inga Auðbjörg. Farið verður í sögugöngu þar sem gengið verður frá Sóleyjargötu og að Arnarhóli og gengið er gegnum sigra í sögu kvennabaráttunnar. „Þetta verður svona kvennabaráttukarnival þar sem það verður spuni, söngur, dans og læti,“ segir Inga Auðbjörg. Um 60 samtök koma að skipulagningu kvennaverkfallsins í ár og er hægt að sjá alla dagskrá á vefsíðunni kvennaár.is. Vetrarfrí í grunnskólum setur strik í reikninginn Svo ber til að kvennafrídagurinn er á upphafsdegi vetrarfrís barna í grunnskólum í Reykjavík. „Þetta er náttúrlega bara staðan, það er vetrarfrí í sumum skólum á landinu og það þýðir að sumt fólk þarf að taka sér frí til þess að vera heima með börnum sínum,“ segir Inga Auðbjörg. „Við vonum að strákarnir geti axlað þessa ábyrgð og verið heima með krökkunum svo konurnar og kvárin geti farið og barist saman á þessu hálfrar aldar afmæli.“