Trump boðar fund með Pútín innan tveggja vikna

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta í ungversku höfuðborginni Búdapest einhvern tíma á næstu tveimur vikum. Tilgangurinn væri að finna leiðir til að ljúka „smánarlegu“ stríði Rússa og Úkraínumanna. Trump sagði að utanríkisráðherrarnir Marco Rubio og Sergei Lavrov hefðu þegar ákveðið að hittast mjög fljótlega. Hugsanlega væri búið að skipuleggja fundinn. Trump kvað þá Pútín hafa átt mjög uppbyggilegt símtal, sem erlendir miðlar segja hafa verið að frumkvæði þess síðarnefnda. Þetta yrði annar fundur forsetanna eftir að Trump komst til valda í janúar. Stjórnvöld í Kreml sögðu traust og einlægni hafa einkennt samtal forsetanna tveggja. Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti staðhæfir að yfirvofandi ógn vegna afhendingar langdrægra, bandarískra Tomahawk-eldflauga hafi aukið samningsvilja Rússa. Trump virðist efins um afhendingu eldflauganna Trump sagðist hafa nefnt flaugarnar við Pútín og að honum hefði ekki líkað sú tilhugsun. Yuri Ushakov, helsti ráðgjafi Pútíns, hafði eftir Pútín að afhending flauganna breytti ekki stöðunni á vígvellinum og skaðaði möguleikana á friðsamlegri lausn. Hins vegar sagðist Bandaríkjaforseti ekki alveg sannfærður um að hægt yrði að láta Úkraínumönnum flaugarnar í té. „Við þörfnumst þeirra líka, þannig að ég veit ekki alveg hvað við gerum,“ sagði Trump. Samskipti Bandaríkjaforseta við forseta Úkraínu og Rússlands hafa verið heldur sveiflukennd og nú virðist hann vera að halla sér nær Pútín að nýju. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði í færslu á samfélagsmiðlinum X að undirbúningur fundar Pútíns og Trumps væri þegar hafinn.