Gítarleikarinn Ace Frehley er látinn, 74 ára að aldri. Hann var einn stofnenda bandarísku glysrokksveitarinnar Kiss og aðalgítarleikari hennar um árabil. Í tilkynningu frá fjölskyldu Frehleys segir að hann hafi dottið og slasast í seinasta mánuði og ekki jafnað sig eftir það. Þau segjast afar sorgbitin yfir fráfalli Frehleys en fagna því að hafa getað umvafið hann ást og hlýju þegar hann kvaddi jarðlífið. Hljómsveitin Kiss var stofnuð 1973 af tungulanga söngvaranum Gene Simmons, ryþmagítarleikaranum Paul Stanley, trommaranum Peter Criss auk Ace Frehley og vakti þegar athygli fyrir stórbrotna búninga, þykkbotna skó, andlitsmálningu og blásið hár. Hljómsveitin Kiss sendi frá sér fjölda stórsmella á borð við I Was Made for Lovin' You , God of Thunder og ballöðuna Beth . Tónleikar Kiss voru yfirleitt miklar skrautsýningar, þrungnir leikrænum tilburðum með flugeldasýningum og reyksprengjum. Ace Frehley yfirgaf Kiss árið 1982, á tímum mikillar fíkniefnaneyslu og listræns ágreinings. Hann stofnaði hljómsveitina Frehley's Comet og gaf út margar plötur sem nutu vinsælda. Frehley sneri aftur í faðm Kiss um miðjan tíunda áratuginn og spilaði með henni í sex ár. Hann skilur eftir sig eiginkonuna Jeanette og dótturina Monique.