Samtök sem hafa barist fyrir frelsun gísla Hamas kröfðust þess í gær að Ísraelsstjórn hætti umsvifalaust við frekari framkvæmd vopnahléssamkomulagsins þar til hreyfingin hættir að brjóta gegn ákvæðum þess með því að afhenda ekki líkamsleifar allra. Leiðtogar Hamas hafa sagt að það tæki langan tíma að finna lík gíslanna, sem væru grafin undir mörgum tonnum af braki bygginga og í neðanjarðargöngum. Tyrklandsstjórn hefur sent sérfræðinga í rústabjörgun til liðsinnis við leitina. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra hefur staðfastlega sagt að líkum allra verið komið til ástvina sinna en varnarmálaráðherrann Israel Katz hótaði Hamas að leggja til atlögu að nýju, virði hreyfingin ekki ákvæði samkomulagsins. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvatt til þolinmæði enda tryði hann því að Hamas væri að leita líkanna. Hins vegar sagðist hann myndi ganga milli bols og höfuðs á Hamas léti hreyfingin ekki af drápum á almennum borgurum á Gaza. Hreyfingin er sögð hafa drepið fólk handahófskennt á Gaza frá því vopnahléð komst auk þess sem átök hafa geisað milli sveita hennar og vopnaðra hópa Palestínumanna, sem sumir eru sakaðir um tengsl við Ísrael. „Ef Hamas heldur áfram að drepa fólk á Gaza, sem var ekki hluti samkomulagsins, eigum við ekki annars úrkosti en að fara þangað og drepa þá,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social . Samkvæmt ákvæðum samningsins er afvopnun Hamas meðal næstu skrefa, sakaruppgjöf þeirra leiðtoga sem leggja niður vopn og endurskipulagning stjórnar yfir Gaza. Einnig er gert ráð fyrir nýrri skipan dreifingar hjálpargagna. Alþjóðlegar hjálparstofnanir bíða í ofvæni eftir að Ísraelsmenn opni að nýju landamærahliðið í Rafah. Utanríkisráðherrann Gideon Saar segist vonast til að hliðið verði opnað á sunnudag án þess að staðfesta þau orð ríkisstjórnarinnar að leiðin verði aðeins opin fólki en ekki vistum. Sameinuðu þjóðirnar lýstu yfir hungursneyð á norðanverðu Gaza í ágúst og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað við mikilli útbreiðslu smitsjúkdóma, enda aðeins 13 af 36 sjúkrahúsum starfhæf að hluta. Hver eru ákvæði vopnahléssamkomulagsins? Gaza verður svæði sem ógnar ekki nágrönnum sínum, það verður laust við öfgar og hryðjuverk. Gaza verður byggt upp að nýju fyrir fólkið á Gaza sem hefur þurft að þola meira en nóg. Ef báðir aðilar samþykkja tillöguna lýkur stríðinu þegar í stað. Ísraelskir hermenn hörfa af umsömdu svæði og allar árásir verða stöðvaðar. Innan 72 klukkustunda frá því að Ísrael samþykkir samninginn verða allir gíslar látnir lausir, einnig jarðneskar leifar þeirra sem eru látnir. Þegar öllum gíslum hefur verið sleppt leysir Ísrael 250 fanga úr haldi sem hafa hlotið lífstíðardóm auk 1.700 Gazabúa sem voru handteknir eftir 7. október 2023, þeirra á meðal konur og börn. Þegar öllum gíslum hefur verið sleppt verður þeim Hamas-liðum sem eru tilbúnir til friðsamlegrar sambúðar og leggja niður vopn veitt sakaruppgjöf. Þegar þetta samkomulag er samþykkt verður allri aðstoð hleypt inn á Gaza tafarlaust. Hún verður að minnsta kosti í samræmi við samkomulag frá 19. janúar 2025 um mannúðaraðstoð. Innflutningur og dreifing mannúðaraðstoðar verður án aðkomu beggja aðila og aðeins í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra, Rauða hálfmánann og aðrar alþjóðastofnanir sem eru ótengdar stríðandi fylkingum. Landamærastöðin við Rafah verður opnuð í samræmi við samkomulag frá 19. janúar 2025. Skipuð verður nefnd sem fer með stjórn á Gaza tímabundið. Hún ber ábyrgð á rekstri og opinberri þjónustu fyrir íbúa Gaza. Nefndin verður skipuð Palestínumönnum, alþjóðlegum sérfræðingum og verður hún undir eftirliti nýrrar alþjóðlegrar friðarnefndar sem Donald J. Trump forseti leiðir. Hún verður skipuð fleiri þjóðarleiðtogum sem verða tilkynntir síðar, Tony Blair fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands fær sæti í nefndinni. Sett verður saman efnahagsáætlun Trumps um að endurbyggja og efla Gaza með aðstoð sérfræðinga. Komið verður á fót sérstöku efnahagssvæði með tollum og gjöldum sem samið verður um. Enginn verður neyddur til að yfirgefa Gaza. Þeim sem vilja fara verður frjálst að gera það og þeir mega snúa aftur. Við munum hvetja fólk til að vera áfram á Gaza og gefa þeim tækifæri á að byggja upp betra Gaza. Hamas og önnur samtök samþykkja að þau eigi engan þátt stjórn Gaza, hvorki beint né óbeint. Öllum hernaðar- og hryðjuverkamannvirkjum verður eytt, þar á meðal göngum og vopnaframleiðslu. Afvopnunarferli verður undir eftirliti óháðra eftirlitsaðila og nýja Gaza verður skuldbundið til þess að byggja upp blómlegt hagkerfi í friðsamlegri sambúð við nágranna sína og íbúa. Samstarfsaðilar á svæðinu sjá til þess að Hamas og önnur samtök uppfylli sínar skuldbindingar og að engum stafi ógn af nýja Gaza. Bandaríkin stofna ásamt samstarfsþjóðum alþjóðlega sveit (ISF) sem verður send strax til Gaza. Ísrael mun hvorki hernema né innlima Gaza. Ef Hamas-samtökin fresta því að samþykkja eða neita þessari tillögu afhendir Ísraelsher nýju sveitinni (ISF) svæði sem teljast laus við hryðjuverkaógn. Komið verður á viðræðum milli trúarhópa til þess að stuðla að friðsamlegri sambúð. Gangi endurbygging Gaza eftir gæti loks verið til staðar grundvöllur fyrir stofnun ríkis fyrir palestínsku þjóðina. Bandaríkin koma á fót viðræðum milli Ísraels og Palestínumanna um friðsamlega og farsæla sambúð.