Ákæra hefur verið lögð fram gegn John Bolton, fyrrverandi öryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hann er þriðji andstæðingur forsetans sem ákærður hefur verið á liðnum vikum. Í ákæruskjali í 18 liðum, sem telur 26 blaðsíður, er Bolton sakaður um að hafa geymt og miðlað trúnaðarupplýsingum með tölvupósti til ónafngreinds fólks sem ekki mátti sjá þær. Talið er að það séu eiginkona Boltons og dóttir sem fengu yfir þúsund blaðsíðna færslur um störf hans sem þjóðaröryggisráðgjafi. Dómsmálaráðuneytið segir gögnin innihalda leyndarmál um fyrirhugaðar árásir, erlenda andstæðinga Bandaríkjanna og um samskipti við erlend ríki. „Hverjum þeim sem misnotar aðstöðu sína og ógnar öryggi landsins ber að standa reikningsskil gjörða sinna,“ sagði dómsmálaráðherrann Pam Bondi og bætti við að enginn væri hafinn yfir lögin. Hámarksrefsing er tíu ár fyrir hvern ákærulið. John Bolton segir ekkert hæft í ákærunum, hann sé enn eitt fórnarlamb vopnvæðingar dómsmálaráðuneytisins. Það leggi fram ákæruliði sem þegar hafi verið hafnað eða snúi út úr staðreyndum. Bolton var þjóðaröryggisráðgjafi Trumps á fyrra kjörtímabilinu og vakti reiði hans með útgáfu bókarinnar T he Room Where It Happened . Hann hefur síðan þá verið einn harðasti gagnrýnandi Trumps og í ræðu og riti sagt hann óhæfan til að gegna forsetaembættinu. Trump sagði aðspurður um viðbrögð við ákærunni Bolton vera illmenni og að svona fari fyrir þeim.