Sýn hefur sent frá sér afkomuviðvörun, þar sem meðal annars segir að þrengt sé að rekstri einkarekinna fjölmiðla á Íslandi með því forskoti sem Ríkisútvarpið, samfélagsmiðlar og erlendar efnisveitur njóti. Félagið hefur lækkað afkomuspá verulega fyrir yfirstandandi ár. Sýn og Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, fá lægra framlag úr ríkissjóði eftir að fjölmiðlafrumvarp varð að lögum í gær. Í tilkynningu Sýnar í gærkvöld er sagt að skortur á raunhæfum aðgerðum stjórnvalda og markaðsaðstæðum sé nauðsynlegt að endurskoða tekjumódel fjölmiðlareksturs félagsins. Gert er ráð fyrir um 280 milljóna rekstrarhagnaði í ár í stað þeirra 800 til þúsund milljóna sem spáð var í ágúst. „Ný afkomuspá gerir ráð fyrir að EBITDAaL verði um 3.450 m.kr., fjárfestingar ársins verði um 3.150 m.kr. og að EBITDAaL að frádregnum fjárfestingum verði um 300 m.kr.“ Með EBITDA er átt við afkomu fyrirtækja áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta. Tekjur undir væntingum Tekjur vegna stakra sjónvarpsáskrifta séu talsvert undir áætlun, einnig auglýsingasala og tekjur vegna hlutanets. Jafnframt hafi bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu um flutningsrétt markaðsráðandi keppinautar á öllu línulegu sjónvarpsefni Sýnar íþyngjandi áhrif á rekstur og tekjumyndun. Til að bregðast við verði rekstrarkostnaður lækkaður sem eigi að skila sér að fullu í byrjun næsta árs og að sjóðstreymi eigi að batna þegar farnetsdreifikerfi verður endanlega framselt til Sendafélagsins. Sölu- og þjónustusviði verði skipt upp og sameinað öðrum sviðum. Með skipulagsbreytingum fækkar um einn í framkvæmdastjórn Sýnar, þegar Gunnar Guðjónsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Sölu- og þjónustusviðs.