Tomahawk-flaugar ber líklega á góma í samtali Úkraínu- og Bandaríkjaforseta

Úkraínuforseti og Bandaríkjaforseti hittast í Hvíta húsinu í dag. Eitt helsta erindi Volodymyrs Zelensky við Donald Trump er að æskja afhendingar langdrægra Tomahawk-eldflauga. Úkraínsk stjórnvöld telja að með því megi þvinga Vladimír Pútín Rússlandsforseta að samningaborðinu. Trump tilkynnti hins vegar í gær að Pútín hefði hringt í hann og að þeir hafi sammælst um viðræður innan tveggja vikna í Ungverjalandi. Hann virtist jafnframt efins um að Zelensky yrði að ósk sinni varðandi eldflaugarnar, Bandaríkin gætu þurft á þeim að halda. Zelensky sagði ógnina af Tomahawk-flaugunum hafa þvingað Pútín til samtals. Hann sagðist jafnframt við komuna til Bandaríkjanna vonast til að góður árangur Trumps við að koma á vopnahléi á Gaza endurtaki sig gagnvart Úkraínu.