Trump hefur að undanförnu hótað því að færa leiki á heimsmeistaramóti karla í fótbolta næsta sumar milli borga í Bandaríkjunum telji hann fara betur á því af öryggisástæðum. Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) hefur nú sagt að Trump geti gert það sé góð ástæða fyrir því . En Trump hefur einnig hótað því að færa Sumarólympíuleikana árið 2028 frá Los Angeles og í aðra bandaríska borg telji hann sýnt að öryggismál í Los Angeles verði ekki eins og hann telji best á kosið. En hefur Trump vald til þess að færa eitt stykki Ólympíuleika eins og honum sýnist? Sé rýnt í gögn Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) að þá í stuttu máli hefur Bandaríkjaforseti ekkert vald til þess. Í samningi við gestaborg (Host City Contract – Principles (2028)), sem undirritaður var árið 2017 af IOC, borginni Los Angeles og Bandarísku ólympíunefndinni (USOPC), kemur fram að Alþjóðaólympíunefndin sé æðsta vald og eigandi Ólympíuleikanna . „ The IOC is the supreme authority of and leads the Olympic Movement, and the Olympic Games are the exclusive property of the IOC ,“ segir í samningnum (Host City Contract Principles bls. 8 liður B). Bandarískt stjórnvöld ekki beinn aðili að samningnum Forseti Bandaríkjanna eða önnur bandarísk stjórnvöld eru ekki aðilar að samningnum. (Host City Contract Principles bls. 8). Þau koma aðeins að honum sem svokölluð „Stjórnvöld gestgjafaþjóðar“ (e. „Host Country Authorities“), sem bera ábyrgð á öryggi, vegabréfsáritunum og öðrum stjórnvaldsverkefnum, en hafa ekkert formlegt vald til að breyta eða flytja leikana. Aðeins IOC getur tekið ákvörðun um að afturkalla eða flytja leikana, til dæmis ef borgin eða skipuleggjendur brjóta gegn skuldbindingum sínum eða ef óviðráðanlegar aðstæður koma upp. (Host City Contract Principles bls. 32-33). Samningurinn er undir svissneskum lögum og hugsanleg ágreiningsmál eru leyst hjá Alþjóða íþróttadómstólnum (CAS) í Lausanne. Forsetinn á þó að tryggja öryggi á leikunum Forsetinn hefur þó vald til þess að tryggja öryggi og lögregluþjónustu á Ólympíuleikunum innan eigin landslaga. (Host City Contract Principles bls. 17). En hann hefur ekki vald til þess að færa Ólympíuleikana á milli borga eftir eigin geðþótta. Ákvörðunarvaldið er í höndum IOC. Það sýndi sig með Sumarólympíuleikana í Tókýó sem halda átti þar árið 2020 að ákvörðunin um að fresta leikunum til ársins 2021 vegna COVID-19 og halda þá síðan það sumar í andstöðu meirihluta íbúa í Tókýó, að IOC hafði ákvörðunarvaldið. Tókýóborg með stuðningi japanskra stjórnvalda höfðu skuldbundið sig til að halda Ólympíuleikana og höfðu enga möguleika á því að hætta einhliða við að halda leikana. Úr því hefði þá líklega orðið stærsta tryggingamál sögunnar. Ítarefni sem þessi grein byggir á: Host City Contract Principles Host City Contract Operational Requirements