Samþykkja aðgerðaáætlun vegna PCC á Bakka

Ríkisstjórnin ætlar að hraða vinnu við þróun nýrra verkefna á Bakka vegna óvissu um framtíð kísilverskmiðju PCC á Bakka á Húsavík. Stjórnvöld eru í viðræðum við sex aðila um fjárfestingu, þar á meðal um gagnaver. Starfshópur um atvinnumál á Húsavík og nágrenni, sem forsætisráðherra skipaði í júní, hefur skilað af sér skýrslu. Í skýrslunni eru ekki lagðar til beinar aðgerðir varðandi PCC þar sem þau mál eru ýmist í ferli hjá stjórnvöldum eða utan verksviðs hópsins. Lagðar eru fram fimm tillögur sem eiga að styðja við atvinnuþróun á svæðinu. Fenginn verður verkefnastjóri til að hraða vinnu við þróun innviða á Bakka og nýta þá innviði sem eru til staðar, þar sem markmiðið er að koma á fót iðngarði. Ríkið borgar 80 prósent af kostnaði við störf verkefnastjóra og Norðurþing 20 prósent. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að kostnaðurinn við það sé um 30 milljónir á ári, þar sem ríkið fjármagnar um 23 milljónir. Ríkisstjórnin þarf að halda vel á spöðunum Aðrar aðgerðir eru að leyfisferlar verða einfaldaðir þegar kemur að uppbyggingu atvinnu og raforkukerfisins almennt. Sömuleiðis á að ráðast í og afgreiða styrkingu flutningskerfis raforku og auka orkuöflun á Norðausturlandi. Þá verða samgöngur og alþjóðatengingar efldar, meðal annars með hafnarframkvæmdum skoðuð verða verkefni sem varða öryggi, varnir og áfallaþol samfélagsins á Norðausturlandi. „Þetta eru tillögur sem geta nýtt sér aðstöðuna sem er á svæðinu. Meðal annars mun það krefjast þess að ríkisstjórnin haldi vel á spöðunum í orkumálum, í raforkukerfismálum, og passi að það séu almennilegar samgöngur á svæðinu. Þetta er hvatning til okkar að sinna þessum verkefnum,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Ríkisstjórnin hefur samþykkt aðgerðaáætlun vegna framtíðaruppbyggingar á Bakka á Húsavík. Enn er óvissa um framtíð kísilvers PCC.