Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot fyrir að flytja til landsins 2.580 OxyContin-töflur í sælgætispokum. Maðurinn hélt því fram að hann hefði keypt sælgætið í verslun og kannaðist ekki við fíkniefnin. Maðurinn, Rafal Terentiuk, var stöðvaður við handahófskennt tolleftirlit er hann kom til landsins frá Varjá í Póllandi í fyrra. Við skoðun á farangri hans komu tollverðir auga á þrjá brúna M&M-poka, innan um önnur matvæli, sem þeir ákváðu að skoða nánar vegna sams konar máls sem hefði komið upp. Í ljós kom að pokarnir innihéldu mikið magn grænna tafla merktum OC 80. Töflurnar voru sendar til greiningar og í ljós kom að þær innihéldu oxýkódon, sterkt verkjadeyfandi lyf sem tilheyrir flokki lyfja sem kallast ópíóíðar. Oxýkódón er lyfseðilsskylt og telst til ávana- og fíkniefna. Fyrir dómi kvaðst maðurinn hafa keypt sælgætispokana í verslun í Póllandi. Hann kvaðst ekki hafa séð neitt athugavert við pokana og hafði ekki hugmynd um hvernig fíkniefnin hefðu komist í farangurinn. Hann kvaðst hafa ætlað að gefa vini sínum pokana en sagði einnig að vinurinn hefði sjálfur farið til Póllands daginn áður. Hann vildi ekki gefa upp nafn vinarins. Við rannsókn málsins kom í ljós að maðurinn hafði á tveggja ára tímabili átt 35 skráðar flugbókanir milli Íslands og Póllands. Á síðustu 12 mánuðum fyrir brotið hafði hann lagt inn á bankabók tæpar 2 milljónir króna í reiðufé og sent tvær og hálfa milljón á pólskan bankareikning sinn. Dóminum þótti framburður mannsins í málinu afar ótrúverðugur og útilokað að honum hefði getað dulist að hann væri að flytja fíkniefni til landsins.