Sagan um kaup Kviku á bresku lánafyrirtæki sem bankastjórinn stofnaði

Almenningshlutafélagið Kvika lauk í mars kaupum á öllu hlutafé í bresku lánafyrirtæki sem bankastjóri Kviku, Ármann Þorvaldsson, stofnaði árið 2013. Seljendur hlutabréfanna eru meðal annars meðstofnendur Ármanns í  Ortus Secured Finance. Þetta eru fjárfestirinn Örvar Kærnested og Bretarnir Richard Beenstock og Jonathan Salisbury sem hafa starfað hjá Ortus um árabil. Ortus Secured Finance er veðlánafyrirtæki sem sérhæfir sig í að veita svokölluð brúarlán með veði í fasteignum í Bretlandi, eins og fjallað hefur verið um áður í fjölmiðlum hér á landi. Brúarlán eru lán sem eru veitt til skamms tíma. Ég hef aldrei gætt neinna annarra hagsmuna en bankans í öllum mínum störfum fyrir bankann. Fyrir átti Kvika rúmlega 80 prósenta hlut í Ortus Secured en á nú allt hlutafé lánafyrirtækisins. Kaup Kviku á þessu eftirstandandi hlutafé Ortus áttu upphaflega að eiga sér stað árið 2028 en viðskiptunum var hraðað. Kvika greiðir samtals um 5,6 milljarða króna fyrir allt hlutafé Ortus. Sá sem seldi mest af hlutabréfum til Kviku var fjárfestingarfélagið Stoðir sem jafnframt er stærsti einkafjárfestirinn Í Kviku. Kvika er almenningshlutafélag sem er að langstærstu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Af 12 stærstu hluthöfum Kviku eru 11 þeirra lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Gildi og Birta eru fjórir stærstu hluthafarnir. Svo kemur fjárfestingarfélagið Stoðir með 5,07 prósenta hlut. Fjallað er um viðskipti Kviku með Ortus Secured Finance í fréttaskýringaþættinum Þetta helst í dag. Hægt er að hlusta á þáttinn hér: Almenningshlutafélagið Kvika gekk í mars frá kaupum á eftirstandandi hlutafé í breska veðlánafyrirtækinu Ortus Secured Finance. Ármann Þorvaldsson bankastjóri stofnaði fyrirtækið árið 2013 áður en hann varð bankastjóri Kviku. Ármann átti sjálfur hlutabréf í Ortus Á kynningu á árshlutauppgjöri Kviku í maí kom meðal annars fram um þessi viðskipti að Kvika hefði hraðað kaupunum á Ortus. Upphaflega hefði staðið til að þau ættu að ganga í gegn árið 2028. Árið 2021 var sagt frá því í tilkynningu að Kvika væri að kaupa meirihluta hlutafjár í Ortus. Kvika átti þá fyrir 15 prósenta hlut í félaginu. Stærsti seljandi hlutabréfanna þá var fjárfestingarfélagið Stoðir sem átti 30 prósenta hlut í Ortus. Ármann Þorvaldsson átti sjálfur hlutabréf í Ortus þar til 2018. Þá seldi hann hlutabréf sín í Ortus til fjárfestingarfélagsins Stoða. Stoðir áttu ekki hlut í Kviku á þessum tíma en tveimur árum síðar varð fjárfestingarfélagið stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi bankans. Eftir þetta keypti Kvika, sem Ármann hefur um árabil stýrt sem forstjóri eða aðstoðarforstjóri, hlutabréfin í Ortus af Stoðum. Ármann Þorvaldsson varð ekki við beiðni fréttastofu um að koma í viðtal um viðskipti Kviku með Ortus Secured Finance. Talsmaður Kviku sagði að bankinn hefði engu við að bæta um viðskiptin umfram það sem fram koma í uppgjöri bankans fyrr á árinu . Hann hefur hins vegar áður sagt í fjölmiðlum að hann hafi alltaf eingöngu hugsað um hagsmuni Kviku í öllum sínum störfum: „Ég hef aldrei gætt neinna annarra hagsmuna en bankans í öllum mínum störfum fyrir bankann og á það jafnt við um viðskipti sem tengjast OSF [Ortus Secured Finance] sem önnur verkefni og ákvarðanir sem ég hef komið að.“ Þátturinn óskaði einnig eftir viðtali við Sigurð Hannesson, stjórnarformann Kviku, um viðskiptin með Ortus. Hann varð ekki við þeirri beiðni en staðfesti í sms-skilaboðum að kaupin á Ortus nú hefðu farið fyrir stjórn bankans. Samruninn við Arion getur skapað tækifæri fyrir Ortus Eitt af því sem er áhugavert við kaup Kviku á Ortus er að nú standa yfir samrunaviðræður á milli Kviku banka og Arion, sem er arftaki Kaupþings. Ef af þeim samruna verður þá tekur Arion væntanlega yfir starfsemi Kviku og þar af leiðandi starfsemi Ortus. Þessar samrunaviðræður voru kynntar í júlí, eftir að Kvika keypti eftirstandandi hlutabréf í Ortus. Alexander Jensen Hjálmarsson, sem er stofnandi greiningarfyrirtækis sem heitir Akkur, segir um mögulegan samruna Kviku og Arion að veruleg tækifæri geti falist í honum fyrir Ortus í Bretlandi. Hann segir að Arion banki geti alltaf fjármagnað Ortus á betri kjörum en Kvika vegna þess að Arion er stærri banki.