Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, tilkynnti á aðalfundi í gær að hann gæfi ekki kost á sér áfram. Hann var formaður sambandsins frá stofnun þess árið 1985 til 2013 þegar hann lét af störfum. Hann fór þó ekki langt því hann gaf út félagsblað samtakanna næstu ár og bauð sig aftur fram til formanns árið 2020. Örn Pálsson framkvæmdastjóri sambandsins tilkynnti einnig í gær að ræða sín á aðalfundi yrði sú síðasta því hann hyggst hætta á árinu. Hann hóf störf hjá Landssambandinu í júní 1986 svo fertugasta starfsár hans er hafið. Í yfirlýsingu segir hann: „Í hönd fer tími með nýjum formanni og ráðningu aðila í minn stað, sem ég mun aðstoða við að taka við starfinu - miðla þekkingu minni og reynslu.“ Hann starfar áfram þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn. Formaður félags strandveiðimanna rær á ný mið Í félagi strandveiðimanna eru líka sviptingar. Kjartan Sveinsson formaður félagsins hefur sagt af sér og gefur kost á sér til formanns Landssambandsins. Félagið er öllu yngra en Landssambandið. Það var stofnað vorið 2022 og Kjartan tók við formennsku ári seinna. Þá hefur Magnús Guðbergsson sagt sig úr stjórn félagsins. Birgir Haukdal Særúnarson er starfandi formaður fram að aðalfundi.