Fjölgun kennara er allra hagur

Umræða um faglegt starf í leikskólum á stundum erfitt uppdráttar í íslensku samfélagi og vill víkja fyrir mun fyrirferðarmeiri umræðu um sérstakt þjónustuhlutverk leikskóla gagnvart foreldrum og atvinnulífi. Samt er óumdeilt og lögbundið að eina „þjónustuhlutverk“ leikskóla snýr að börnum og felst í að tryggja þeim gæðamenntun, uppeldi og umönnun með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Verkefni leikskólans er því fyrst og síðast að veita öllum börnum gæða menntun – og þá þjónustu vilja kennara veita, börnum og foreldrum til mikilla hagsbóta.