Ranucci tjáir sig um sprengjutilræðið: „Við höfum pirrað hálfan heiminn“

Sigfrido Ranucci, einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Ítalíu, segir erfitt að segja til um hver hafi komið sprengju fyrir við heimili sitt. Hann tjáði sig um atvikið við fréttamenn í Róm í dag. Sprengjan sem sprakk í gærkvöld var svo öflug að hún hefði getað banað fólki sem átti leið hjá. Engan sakaði en bifreiðar Ranuccis og dóttur hans skemmdust. Ranucci er einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Ítalíu og umsjónarmaður þáttarins Report sem er einn af fáum fréttaskýringaþáttum í ítalska ríkissjónvarpinu Rai. „Við höfum pirrað hálfan heiminn svo þetta er örlítið flókið,“ segir Ranucci. Hann segir að í fyrra hafi byssukúlur fundist í runna við heimili sitt en engin fingraför voru á þeim. Á sama tíma var Report að fjalla um fjöldamorð mafíunnar og tengsl milli Cosa Nostra, Ndrangheta og öfgahægrisins á Ítalíu. Þá hafi þeim borist morðhótanir. Ranucci var spurður hvaða áhrif atvikið í gær hafi á störf þáttarins. „Þetta gefur okkur bara aukinn kraft en getur þó haft þau áhrif að minni tími fer í að huga að framleiðslu þáttanna þegar svona atvik komi upp.“