Staðfesti fimm ára dóm vegna tilraunar til manndráps

Landsréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. maí 2024 þar sem Sindri Kjartansson var dæmdur í fimm ára fangelsi vegna tilraunar til manndráps. Málið varðar atvik frá 16. júlí 2022 þar sem Sindri veittist að öðrum manni og stakk hann tvisvar sinnum með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega áverka á holhandarslagæð og opið sár á framvegg brjóstkassa. Ákærða og brotaþola bar saman um að ákærði hefði gripið hníf úr hnífastandi í eldhúsi heima hjá brotaþola og veist að honum. Þá greindi hins vegar mjög á um aðdragandann. Ákærði sagði brotaþola hafa brotið á sér kynferðislega og hann hafi því slegið til hans með hnífnum í neyðarvörn. Brotaþoli vísaði þessu á bug og sagðist hafa reynt að vísa ákærða úr íbúðinni en hann hafi brugðist við með því að kýla hann og síðan stinga hann með hnífnum. Ýmislegt var talið draga úr trúverðugleika ákærða, einkum að hann væri missaga um mikilvæg atriði, til dæmis um staðsetningu hnífanna sem notaðir voru við árásina. Var því framburður brotaþola lagður til grundvallar. Landsréttur hafnaði því þeirri skýringu ákæranda að árásin hefði verið neyðarvörn og staðfesti fimm ára fangelsisdóm héraðsdóms.