Það hafa allir skoðun á einhverju eða í það minnsta eina pínupælingu til útflutnings. Fréttastofan fór með pínulítinn hljóðnema í Skeifuna til að hitta fulltrúa þjóðarinnar og heyra beint frá fólkinu hvað brennur á því. @ruvfrettir Pínupælingar dagsins: Ef þú ert með spurningar eða ábendingar, hafðu samband við samfelagsmidlar@ruv.is #fréttir #rúv #pínupæling #hottake #skoðun ♬ original sound - RÚV - fréttir Í fyrstu atrennu kom fyrirferð þjóðlegrar matargerðar nokkuð á óvart en fólkið í Skeifunni var líka að hugsa um Strætó, Evrópusambandið og aðstæður heimilislausra. Pælingar um þjóðlega matargerð Elín Jóhannsdóttir hefur þá skoðun að það ættu allir að taka slátur. „Það er orðið of lítið um að fólk sé að þessu held ég,“ segir Elín. Hún vill meina að slátur sé hollt, allavega svo framarlega sem ekki sé hafður of mikill mör í því. Hvað brennur á þjóðinni? Fólkið sem fréttastofa hitti í Skeifunni hafði skoðanir á þjóðlegri matargerð, strætókerfinu og Evrópusambandsaðild. Pæling Kristbjargar Kamillu Sigtryggsdóttur er á mjög svipuðum slóðum og Elínar. Hún segir ungt fólk vera að tapa gömlum handtökum í matargerð. „Matur í dag er orðinn svo unninn, við þurfum aðeins að pæla í því hvað við erum að setja ofan í okkur,“ segir Kristbjörg. Hvað brennur á þjóðinni? Fólkið sem fréttastofa hitti í Skeifunni hafði skoðanir á þjóðlegri matargerð, strætókerfinu og Evrópusambandsaðild. Það þarf að auka fræðslu og kennslu um hvaðan matur kemur og hvernig hann er búinn til í skólakerfinu segir hún. Ekki síst þurfi að auka þekkingu á því sem hægt sé að nýta úr náttúrunni. „Það eru kúmen, jurtir, ber, sveppir og allt svona.“ Í þáttunum Uppskriftabókin sem sýndir hafa verið á RÚV í vetur sýndi Margrét Sigfúsdóttir, sem lengi var skólastjóri hússtjórnarskólans í Reykjavík, réttu handtökin við sláturgerð. Nokkuð hefur verið fjallað um gjörunnin matvæli og tengsl þeirra við lífstílssjúkdóma í fréttum undanfarin misseri. Pælingar um Strætó „Strætó er overrated,“ segir Eiríkur Ísak Magnússon sem er þeirrar skoðunar að Strætó sé ofmetinn. Honum þykir leiðinlegt að taka strætó og kýs miklu frekar að fá far með vinum sínum þegar hann þarf að komast á milli staða. Það er pæling. Hvað brennur á þjóðinni? Fólkið sem fréttastofa hitti í Skeifunni hafði skoðanir á þjóðlegri matargerð, strætókerfinu og Evrópusambandsaðild. Almenningssamgöngur eru oft til umræðu og líklega flestir sem hafa skoðun á því hvernig þeim skuli háttað. Emma Elísabet Guðmundsdóttir hefur líka skoðun á almenningssamgöngum en hún telur að Strætó ætti að vera ókeypis fyrir ungmenni, rökstuðningurinn er einfaldur. „Við erum öll í skóla og þurfum að nota hann til að komast í skólann.“ Hvað brennur á þjóðinni? Fólkið sem fréttastofa hitti í Skeifunni hafði skoðanir á þjóðlegri matargerð, strætókerfinu og Evrópusambandsaðild. Fréttastofa gerði tilraun í haust í tilefni breytinga á leiðakerfi strætó þar sem kom í ljós að á hánnatíma að morgni og síðdegis tók álíka langan tíma að komast frá Hafnarfirði í Háskóla Íslands og til baka með Strætó og með einkabíl. Fleiri en Emma Elísabet hafa talað fyrir gjaldfrelsi almenningssamgangna og þá sérstaklega fyrir börn og ungmenni. Evrópupæling Guðbjartur Össurarson var á hraðferð þegar hann ræddi við fréttastofu en vildi samt koma sinni skoðun á framfæri, nefnilega þeirri að hann er alfarið á móti Evrópusambandsaðild. Hvað brennur á þjóðinni? Fólkið sem fréttastofa hitti í Skeifunni hafði skoðanir á þjóðlegri matargerð, strætókerfinu og Evrópusambandsaðild. Skoðanir á Evrópusambandinu og mögulegri aðild Íslands að því eru sígrænar. Umræða um aðild hefur verið fyrirferðarmikil í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið og viðbúið að svo verði áfram. Sitjandi ríkisstjórn hefur boðað atkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Samkvæmt stjórnarsáttmála á hún að fara fram eigi síðar en árið 2027. Spurningin um aðild er eitt af stóru málunum sem stjórn og stjórnarandstöðu greinir á um og það kristallast í afstöðu til fjölda annarra mála, þar er nærtækt að nefna bókun 35. Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 þegar ríkisstjórn Samfylkingar og VG var við völd. Þá fór ekki fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sækja ætti um heldur var það samþykkt sem þingsályktun. Umsóknarferlið var stöðvað árið 2015 af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, það var ekki gert með þingsályktun heldur bréfi ráðherra til sambandsins. Talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins sagði í viðtali við RÚV í janúar á þessu ári að umsókn Íslands frá árinu 2009 væri enn gild. Pæling um aðstoð við heimilislausa Arnþór Jökull Atlason segir að það ætti að hjálpa heimilislausu fólki, til að mynda með því að bæta við þann pening sem það fær til framfærslu frá ríkinu. Hann er á því að með hærri framfærslu geti fólk komist af götunni og það verði betra fyrir alla til lengri tíma. Hvað brennur á þjóðinni? Fólkið sem fréttastofa hitti í Skeifunni hafði skoðanir á þjóðlegri matargerð, strætókerfinu og Evrópusambandsaðild. Fjárhagslegur stuðningur við heimilislaust fólk er ekki einfaldur, það er að segja það eru ekki sérstakar bætur eða framfærsla fyrir þennan þjóðfélagshóp. Fólk sem á ekki heimili hefur þó í flestum tilvikum framfærslu frá hinu opinbera, það getur til dæmis verið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, sjúkra- eða endurhæfingarlífeyrir. Allur gangur er þá á því úr hversu miklu þessi hópur hefur að moða á mánuði. Fjárhagsaðstoð sveitarfélags til einstaklings getur til að mynda verið tæpar 250 þúsund krónur á mánuði, réttur til atvinnuleysisbóta er háður tekjum fyrir atvinnumissi og örorku og endurhæfingarlífeyrir er háður örorkumati og öðrum tekjum. Reykjavíkurborg hefur borið mestan þunga af þjónustu við heimilislaust fólk á Íslandi og borgin er eina íslenska stjórnvaldið sem hefur sérstaka stefnu í málefnum þess hóps. Í Reykjavík eru rekin gistiskýli, sérstakt félagslegt húsnæði og sérhæfð ráðgjöf fyrir heimilislausa. Heimilislausir greiða ekki sérstaklega fyrir gistingu í gistiskýlum en leigusamningar eru gerðir við þá sem hafa verið án heimilis og nýta sérstakt félagslegt húsnæði borgarinnar fyrir þennan hóp, til dæmis í smáhýsum.