Persónuvernd hefur úrskurðað að forsætisráðuneytinu hafi verið heimilt að láta Ásthildi Lóu Þórsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, vita af kvörtun Ólafar Björnsdóttur á hendur henni. Ólöf, sem er fyrrverandi tengdamamma barnsföður Ásthildar, hafði þá leitað til forsætisráðuneytisins og óskað eftir fundi með forsætisráðherra um málefni Ásthildar Lóu en jafnframt tekið fram að Ásthildur mætti sitja fundinn. Eftir að hafa fengið vitneskju af erindi Ólafar bankaði Ásthildur Lóa upp á á heimili Ólafar og eiginmanns hennar. Ólöf hefur lýst því yfir að forsætisráðuneytið hafi með þessu rofið trúnað. Persónuvernd tekur ekki undir það. Í úrskurði Persónuverndar er bent á að Ólöf hafi sett sig í samband við forsætisráðuneytið og óskað eftir fundi með forsætisráðherra en jafnframt tekið fram að það væri „í góðu lagi“ ef Ásthildur Lóa sæti þann fund. Persónuvernd fellst á málflutning forsætisráðuneytisins um að það sé eðlilegt, með hliðsjón af leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og meginreglunni um að stjórnvöldum sé skylt að svara erindum borgara, að forsætisráðuneytið hafi þurft að bera málið undir menntamálaráðherra. Ólöf hefur haldið því fram að hún hafi í símtali til forsætisráðuneytisins óskað eftir því að trúnaður yrði haldinn um erindið. Þessu hefur forsætisráðherra hafnað. Í úrskurði Persónuverndar segir að þarna sé orð gegn orði og ekki hægt að úrskurða um þann þátt málsins.