Geese – Au Pays du Cocaine Hljómsveitin Geese hefur komið reglulega við í Fimmunni að undanförnu og það er ástæða fyrir því. Sveitin fær einróma lof tónlistargagnrýnanda fyrir plötu sína Getting Killed þar sem upphrópanir eins og rokkplata ársins , heilsteypt meistaraverk og schniiild hafa heyrst. Earl Sweatshirt – Tourmaline Næstur upp á dekk er Earl Sweatshirt sem er rappari sem vakti fyrst athygli fyrir nokkrum árum fyrir að djamma með Odd Future-genginu og Tyler, The Creator. Síðan eru liðin mörg ár og nokkrar plötur en nýja plata Earls, Live, Laugh, Love, þykir vera býsna sniðug og af henni er lagið Tourmaline sem er alveg bólufreðið. Wednesday – Townies Hljómsveitin Wednesday er frá Norður-Karólínu og er skipuð fjórum hressum indíkrökkum sem hafa vakið athygli annarra indíhausa. Lag þeirra Townies er nú svo sem ekkert að fara toppa neina vinsældarlista en er engu að síður mjög hressandi. Phantogram – Earthshaker Dúettinn Phantogram hefur verið starfandi í að verða tvo áratugi og blandar saman raf- og draumapoppi, trip-hoppi og gítarrokki. Nýjasta lag þeirra er Earthshaker sem er ágætisdæmi um hljóm sveitarinnar sem segist vilja bræða saman gamla sálartónlist og krautrokk í laginu. Tame Impala – My Old Ways Eins og Geese þá hefur Kevin Parker eða Tame Impala komið reglulega við í Fimmunni. Ástæðan að þessu sinni er að platan kemur út í dag og verður væntanlega á fóninum hjá mörgum tónlistarnördum um helgina en My Old Ways er opnunarlag hennar. Lagalisti Fimmunar