Hver verður næsti borgarstjóri New York?

Frambjóðendur til borgarstjóra New York-borgar tókust á í kappræðum á Rockefeller Center í Manhattan í gær. Val New York-búa um borgarstjóra stendur á milli Zohrans Mamdani, sem er í framboði fyrir Demókrataflokkinn; Curtis Sliwa, í framboði fyrir Repúblikanaflokkinn; og Andrews Cuomos sem er óháður. Kosið verður 4. nóvember. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst í næstu viku og nýjustu kannanir benda til þess að Zohran Mamdani hafi aukið forskot sitt í 46% en að Andrew Cuomo sé með 33% fylgi. Frambjóðendur ræddu meðal annars húsnæði á viðráðanlegu verði, samgöngur, Trump og vopnahlé á Gaza. Ólíkar hugmyndir um samvinnu við Trump Donald Trump Bandaríkjaforseti bar ítrekað á góma en forsetinn hefur gefið í skyn að hann vilji senda þjóðvarðliðið inn í borgir sem Demókratar stjórna. Hann hefur gripið til aðgerða til að halda eftir ríkisfé til innviðaverkefna í New York. Trump hefur einnig sett borgina í forgang í stefnu sinni um fjöldabrottvísanir og borgarstjórinn, sem hefur lítil völd yfir alríkislögreglunni í innflytjendamálum, þarf líklega að íhuga viðbrögð borgarinnar. Sliwa, frambjóðandi Repúblikana, benti á að borgarstjórinn og Trump þyrftu að ná saman óháð pólitískum skoðunum. Mamdani gerði hins vegar andstöðu sína við forsetann skýra og lofaði að „taka á Trump“. Cuomo stillti sér upp sem eina frambjóðandanum með næga reynslu til að takast á við forsetann. Þá sagði hann Mamdani hvorki hafa þá reynslu né hæfni sem borgarstjórasætið krefðist. „Þetta er ekki starf fyrir byrjanda. Hvenær sem er getur komið fellibylur eða guð hjálpi okkur 11. september, heilbrigðisfaraldur. Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera gæti fólk dáið,“ sagði Cuomo. Mamdani gagnrýnir hernaðaraðgerðir Ísraels Yfirlýsingar Mamdanis um Ísrael og Palestínu komu nokkrum sinnum við sögu í kappræðunum, bæði í spurningum frá stjórnendum og í gagnrýni frá andstæðingum hans. Frambjóðandinn hefur lagt áherslu á stuðning sinn við Palestínumenn og ríkisstofnun þeirra og hefur gagnrýnt hernaðaraðgerðir Ísraels á Gazasvæðinu. Bandaríkin hafa verið stærsti bandamaður Ísraels. Ef leigan þín er of lág, kjóstu hann Stærsta kosningamálið er framfærslukostnaður, þá sérstaklega leiguverð og verðið á matarkörfunni. Frambjóðendur voru með ólíkar hugmyndir að lausnum: Mamdani vill að það verði ókeypis í strætó og Sliwa skorar á næsta borgarstjóra að losa um auðar íbúðir hjá NYCHA, félagsíbúðakerfi borgarinnar, og leyfa fólki að flytja inn. Cuomo lagði til að setja tekjumörk á fólk sem býr í íbúðum með leiguþaki og gagnrýndi Mamdani fyrir að búa í slíkri íbúð, þrátt fyrir að eiga efnaða foreldra. Hann gagnrýndi líka tillögu Mamdanis um að frysta leigu á íbúðum með leiguþaki. Hann sagði það einungis fresta hækkun á leiguverði, keyra byggingaeigendur í gjaldþrot og bitna á þeim New York-búum sem ekki búa í íbúðum með leiguþaki. „Ef þér finnst vandamálið í þessari borg vera það að leigan þín sé of lág, kjóstu hann,“ svaraði Mamdani. „Ef þú veist að vandamálið í þessari borg er að leigan er of há, kjóstu mig.“ Demókratar fylgjast grannt með Demókrataflokkurinn á landsvísu fylgist með borgarstjórnarkosningunum til að sjá hvort New York, stærsta vígi Demókrata í Bandaríkjunum, velur miðjumann úr valdakerfinu, Cuomo eða hinn framsækna Mamdani. Sigurvegarinn gæti haft áhrif á frambjóðanda og stefnu Demókratar í næstu forsetakosningum, eftir tap þeirra fyrir Trump í fyrra. Frjálslyndi ríkisþingmaðurinn Mamdani hlaut útnefningu Demókrataflokksins í borgarstjóraframboði í New York í sumar. Hann vann forvalið með 56% atkvæða gegn 44% atkvæða Andrews Cuomos sem er fyrrverandi ríkisstjóri í New York. Hann sagði af sér árið 2021 eftir fjölda ásakana um kynferðislega áreitni.