Uppsagnir hjá Sýn

Hlutabréfaverð í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu Sýn tók skarpa dýfu í morgun. Fyrirtækið gaf út afkomuviðvörun í gærkvöld. Hlutabréfaverð lækkaði um tæp 20 prósent. Boðað var til starfsmannafundar í morgun þar sem tilkynnt var um hagræðingaraðgerðir, meðal annars uppsagnir. Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri segir við fréttastofu að nokkrum hafi verið sagt upp í morgun í flestum deildum fyrirtækisins. Hún vill ekki gefa upp fjölda uppsagnanna, en segir að þær hafi þó ekki verið margar og ekki sé um hópuppsögn að ræða. Auk þeirra hafi þó verið ákveðið að ráða ekki í stöður sem hafi losnað eða muni losna á næstunni. Fyrirtækið birti afkomuviðvörun sína í Kauphöllinni í gærkvöld. Þar kemur fram að tekjur vegna stakra sjónvarpsáskrifta séu talsvert undir áætlun. Þar er vísað til bráðabirgðaákvörðunar Fjarskiptastofu sem kvað upp úr um að Sýn yrði að leyfa dreifingu á íþróttarásum sínum í gegnum kerfi Símans.