Jörðin undir fótum okkar: Frumleg heimildamyndagerð sem ætti ekki að láta neinn ósnortinn

Kolbeinn Rastrick skrifar: Jörðin undir fótum okkar er nýjasta heimildamynd leikstjórans Yrsu Roca Fannberg, framleidd af Hönnu Björk Valsdóttur. Myndin gerist öll á hjúkrunarheimilinu Grund sem hefur staðið við Hringbraut í nær heila öld, eða frá árinu 1930. Yrsa hefur sjálf starfað á Grund um árabil við umönnun og sem sjúkraliði. Myndin hefst á því að áhorfendur sjá Yrsu nota hlustunarpípu til þess að leyfa konu sem býr á Grund að heyra hjartslátt sinn. “Hjartslátturinn er flottur” segir konan eftir að hafa sungið hluta af ljóði Davíðs Stefánssonar, Til eru fræ . Hún er enn á lífi og getur enn sungið. Þetta er eina skiptið sem sést eða heyrist í Yrsu í myndinni. Áherslan er á íbúa Grundar, eins og þessa konu, sem eiga eftir að eiga heima þar til æviloka. Frekar en að nota bein viðtöl eða sögumann sem talar yfir myndefnið er myndavélin eins og fluga á vegg. Áhorfendur fylgjast því með daglegu lífi heimilismanna eins og þeir væru einir af þeim. Jörðin undir fótum okkar er öll tekin á 16mm filmu. Það er Wojciech Staroń sem sér um kvikmyndatökuna og á hann mikið hrós skilið. Kvikmyndatakan er virkilega falleg og það sést að hann hefur algera stjórn á rammanum, eitthvað sem er oft erfitt sérstaklega í tilfelli heimildamynda. Ákvörðunin að nota filmu frekar en stafræna kvikmyndatöku passar fullkomlega við efni myndarinnar. Ólíkt hinu stafræna er filman áþreifanlegur efniviður sem er viðkvæmur fyrir tímans tönn og mun á endanum brotna niður. Það er ákveðin fegurð því fólgin í hverfulleika filmunnar. Þessi fegurð rammans nær líka til viðfanga myndarinnar. Líkamar þeirra og sérstaklega hendur eru oft sýndir í nærmynd og á þeim sést hvernig aldur og ævi markar landslag líkamans. Í mörgum þessara nærmynda sést einnig hvernig líkamar tengjast með faðmlögum og höndum sem halda blíðlega hvor í aðra. Með því að halda í hvort annað heldur fólkið í lífið og ástina. Myndinni tekst með kvikmyndatökunni því að fanga hið mannlega og fallega í lífi heimilisfólks á Grund, þó alls ekki á væminn hátt. Vinkonur á níræðisaldri sitja saman á bekk úti og hlæja saman að því að þær séu ennþá að reykja; Maður hugar að jarðaberjabeði og gefur svo kisu sem fylgist með álengdar að éta; Arnljótur, naglalakkar Ástu, eiginkonu sína, sem er ófær um það sjálf. Þar sem leikstjórinn og aðkomendur myndarinnar eru nær ósýnilegir í gegnum myndina virka þessi augnablik sérstaklega náttúruleg og einstök, eins og þau hafi verið fönguð fyrir algjöra tilviljun. Það er þó skýrt frá upphafi að þetta er kvikmynd. Í fyrstu senu myndarinnar spyr konan hvað Yrsa ætli að “gera með þetta” og á þá við myndefnið. Hún svarar því að hún sé að gera kvikmynd um lífið. Með því að fletta strax ofan af því hver leikstjóri myndarinnar er og hver tilgangurinn er, er allt sem á eftir kemur sett í samhengi. Þrátt fyrir að myndin sýni að því er virðist daglegt líf er höfundur á bakvið það sem sést. Þessi meðvitaða uppljóstrun Yrsu um sig sem höfund kallast á við hugmyndir mikilsvirta heimildamyndagerðarmannsins Fredericks Wiseman. Wiseman, sem hefur leikstýrt myndum á borð við High School , Titicut Follies og Welfare , hefur sagt myndir sínar langt frá því að vera blákaldur og hlutlaus sannleikur. Í gerð heimildamynda felst val um hvað og hvernig efni er sýnt og raðað saman og birtist höfundurinn í því. Framsetningin á myndefni og því sem myndað er í Jörðin undir fótum okkar er nefnilega svipuð því sem sést í myndum Wisemans. Í stað þess að atburðir og augnablik séu sett fram í tímaröð er myndinni raðað saman eftir ákveðnum þemum eða hugmyndum. Eins eru það ekki einstaka manneskjur sem gegna aðalhlutverki, hvorki í Jörðin undir fótum okkar né í myndum Wisemans. Líkindin liggja svo einnig í því að augunum er beint að stofnun og fylgst með henni í anda flugu á vegg. Þessi líkindi með verkum Wisemans sýna fram á tvennt. Í fyrsta lagi að hér er loksins á ferðinni íslensk heimildamynd sem stefnir á frumlegri mið í heimildamyndagerð en hefur tíðkast hér á landi og tekst það. Í öðru lagi sýna þau fram á hvernig Jörðin undir fótum okkar fetar samt sem áður aðra braut en þá að apa einungis eftir erlendum myndum, þar sem líkindin sýna einnig hversu ólík hún er verkum Wisemans. Verk hans hafi að miklu leyti einkennst af gagnrýni á þær stofnanir sem eru í brennidepli. Þau hverfast um átök oftast tveggja hópa, til að mynda þeirra sem sem reka geðsjúkrahúsa og þeirra sem eru vistaðir þar, nemenda og kennara eða lækna og sjúklinga. Í Jörðinni undir fótum okkar eru það aftur á móti nær einungis þeir sem dvelja á Grund sem birtast í myndinni. Pólarnir tveir eru því ekki mismunandi hópar fólks, fólks sem er á lífi, heldur samanstanda þeir af hinum lifandi og svo dauðanum sem er alltumlykjandi. Í fyrsta atriði myndarinnar þegar Yrsa er spurð um hvað myndin er svarar hún “lífið.” Í kjölfarið spyr konan: byrjarðu lítið barn og þangað til að… Þar sem konan liggur í rúminu á hjúkrunarheimilinu klárar hún ekki setninguna og lætur það liggja ósagt hvar kvikmyndin myndi enda. Það er skýrt fyrir öllum sem þarna dvelja hvað tekur við eftir dvölina. Dauðinn er alltaf til staðar, minningargreinar í mogganum, bíllinn sem sækir jarðneskar leifar þeirra sem hafa látist á heimilinu og sálmaskrár fyrir útfarir. Allt þetta tilheyrir hinu daglegu lífi. Lífinu fylgir sorgin sem felst í dauðanum og það er til dæmis erfitt að horfa á þegar eldri maður er að kveðja móður sína sem dvelur á Grund í síðasta skipti. Eins er sorglegt að fylgjast með manninum sem tekur stutta göngutúra fyrir framan útidyrahurðina þar sem hann þylur upp faðir vorið og fer með bæn fyrir látna konu sína. Einnig er erfitt að fylgjast með Ástu sem var verið að naglalakka og sjá að hún man ekki eftir því að hún er sú eina eftirlifandi í systkinahópnum. Þessi atriði eru öll ofin saman í hið daglega líf og standa því í ákveðnu jafnvægi við hið fallega. Allt verður þetta partur af lífinu. Myndmál kvikmyndatökunnar sem kemur til skila hinu fallega kemur því jafnt til skila harminum. Til að mynda með því að sýna autt sæti á bekknum við hlið konunnar sem áður hafði setið þar með vinkonu sinni og hlegið. Þau augnablik gleði og húmors eiga sér svo eins stað í hinu daglega og mannlega. Þegar Ásta heyrir að hún er sú eina af systkinunum sem ekki er komin með dánardægur svarar hún því að hún sé einfaldlega ekki búin að koma því í verk. Allt tekur þó enda og í lok myndar syngur heimilismaður Sofðu unga ástin mín . Samhliða því virðist blæða ljós inn á filmuna og hún virðist vera að brotna niður. Eins flæðir ljós inn um glugga konu sem dvelur á Grund og þegar klippt er á manninn sem syngur er hann hálf falin í hvítu mistri. Hægt og rólega missum við sjónar á manninum í rammanum. Við tekur grár tómur rammi. Það er sú mikla nánd og virðing fyrir viðfangsefninu og stofnuninni sem gefur myndinni sinn helsta styrkleika. Það er jafnframt ef til vill það sem hægt væri að benda á að gæti verið ákveðinn veikleiki. Engin gagnrýni eða ágreiningur skýtur upp kollinum innan veggja Grundar í myndinni. Í Jörðinni undir fótum okkar er þó skýrt að það er ekki tilætlunin og sýnir það fram á gott vald yfir því sem verið er að miðla, sérstaklega í samhengi heimildamyndar sem glímir við ófyrirsjáanlegan raunveruleikann. Jörðin undir fótum okkar tekst á ljóðræðan hátt að miðla lífi þeirra sem dvelja á Grund og á sama tíma lífinu sem slíku sem er samspil gleði, fegurðar og harms. Hér er því á ferðinni frumleg heimildamyndagerð sem ætti ekki að láta neinn ósnortinn. Kolbeinn Rastrick, kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, rýnir í heimildarmyndina Jörðin undir fótum okkar eftir Yrsu Roca Fannberg. „Þessi augnablik virka sérstaklega náttúruleg og einstök, eins og þau hafi verið fönguð fyrir algjöra tilviljun.“ Kolbeinn Rastrick flutti pistil sinn í Lestinni á Rás 1 sem finna má hér í Spilara RÚV. Kolbeinn er meistaranemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og hefur unnið fyrir RIFF og Stockfish kvikmyndahátíðirnar.