Ríkissaksóknari vísar kæru Jóns Óttars frá

Ríkissaksóknari hefur vísað frá kæru Jóns Óttars Ólafssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, á hendur Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara. Einar Tryggvason, saksóknari hjá ríkislögreglustjóra, staðfestir þetta við fréttastofu. Morgunblaðið greindi frá kæru Jóns Óttars í júní. Í kærunni sakaði Jón Óttar Ólaf Þór um rangar sakargiftir í máli árið 2012 en þá gegndi Ólafur embætti sérstaks saksóknara. Sérstakur saksóknari kærði Jón Óttar fyrir brot gegn þagnarskyldu þegar Jón Óttar vann fyrir embætti saksóknara en málið var síðan fellt niður. Jón Óttar hélt því fram að kæran hefði verið lögð fram gegn betri vitund, hún hafi verið röng og byggð á rangfærðum samningi sem saksóknari hafi sjálfur útbúið. Þá hafi sérstakur saksóknari sleppt því að leggja fram tölvupósta sem hefðu sannað sakleysi hans. Kveikur fjallaði fyrr á árinu um persónunjósnir og gagnastuld Jóns Óttars frá lögreglu og saksóknara. Í kjölfarið kærði hann umfjöllunina til siðanefndar Blaðamannafélagsins en hún vísaði kærunni frá þar sem hún uppfyllti ekki formskilyrði.