Fátæktargildra var sett upp fyrir framan Alþingishúsið í morgun, þingi og öðrum að óvörum. Gildran var stór kassi sem ÖBÍ réttindasamtök komu fyrir. Þetta gerðu þau til að vekja athygli á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt. Hún var þó fjarlægð skömmu síðar þar sem ekkert leyfi fékkst fyrir henni. Alþingi vissi ekkert af fyrirhugaðri uppsetningu verksins fyrr en það var sett niður við fyrir framan þinghúsið. Starfsmenn þess fengu þó fljótt skýringar á tilurð fátæktargildrunnar og upplýsingar um að hún yrði fjarlægð síðar í dag. Því taldi Alþingi ekki ástæðu til að aðhafast, samkvæmt upplýsingum frá þinginu. ÖBÍ réttindasamtök komu fyrir verki sem átti að minna á fátækt við Alþingi í morgun. Ekki hafði fengist leyfi fyrir uppsetningunni og var fátæktargildran því fjarlægð. ÖBÍ réttindasamtök höfðu ekki fengið leyfi Reykjavíkurborgar til að koma fátæktargildrunni fyrir við þinghúsið. Þær upplýsingar fengust frá Reykjavíkurborg að starfsmenn Alþingis hefðu haft samband við borgina og spurst fyrir um hvort leyfi hefði fengist fyrir uppsetningu fátæktargildrunnar. Þar sem svo var ekki kallaði borgin lögregluna til sem ræddi við forsvarsmenn ÖBÍ. Kranabíll var fenginn að Alþingi og notaður til að fjarlægja fátæktargildruna, sem mun hafa verið gert á kostnað ÖBÍ. Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ, sagði fréttamanni RÚV við Alþingishúsið að markmiðið væri að vekja athygli á aðstæðum þeirra sem búa við fátækt. ÖBÍ réttindasamtök komu fyrir verki sem átti að minna á fátækt við Alþingi í morgun. Ekki hafði fengist leyfi fyrir uppsetningunni og var fátæktargildran því fjarlægð. „Þetta er fátækragildra þar sem margir samfélagsþegnar okkar lenda í þar sem þau þurfa meðal annars að mæta óvæntum útgjöldum sem þau geta ekki staðið straum af og þurfa þá að leita á náðir yfirdráttar eða annarra smálána. Þá hefst vítahringurinn.“ „Við erum með þessum táknræna gjörningi að benda á að þetta er raunveruleg staða. Þetta er ekki bara tölfræði.“ Þó ÖBÍ hafi sett fátæktargildruna niður við Alþingishúsið í dag átti hún ekki að vera þar lengi. Hún verður hluti af kynningu samtakanna í Smáralind um helgina. Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Reykjavíkurborg.