Paloma Shemirani var aðeins 23 ára þegar hún lést úr eitilfrumukrabbameini í fyrra. Þegar hún greindist sjö mánuðum áður, voru taldar 80% líkur á að hún næði fullum bata með lyfjameðferð. Móðir hennar, Kate Shemirani, er þekkt í Bretlandi. Hún missti leyfi sitt sem hjúkrunarfræðingur í kórónuveirufaraldrinum fyrir að dreifa skaðlegum upplýsingum. Kate Shemirani tókst að sannfæra dóttur sína um að hafna lyfjameðferð og gangast frekar undir óvísindalegar meðferðir skottulækna. Hún tapaði því baráttu sinni við meinið. Dánardómstjóri í Bretlandi segir umsjá Kate Shemirani yfir dóttur sinni ófullnægjandi og skammarlega, en ekki glæpsamlega. Bróðir Palomu er ósáttur við niðurstöðuna. Viðtal við Gabriel má sjá í spilaranum hér að ofan en nánar er fjallað um málið í Heimskviðum á Rás 1 á morgun.