Hamas-hreyfingin hefur afhent Ísraelum líkamsleifar eins gísls til viðbótar, með milligöngu Rauða krossins. Tilkynning þessa efnis barst frá skrifstofu Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra í kvöld þar sem sagði að réttarmeinafræðingar bæru kennsl á hinn látna. Hamas hefur þegar sleppt þeim tuttugu gíslum sem voru á lífi ásamt níu af tuttugu og átta líkum Ísraelsmanna í haldi þeirra. Ísraelsmenn slepptu á móti næstum tvö þúsund Palestínumönnum úr fangelsum og gerðu hlé á hernaðargerðum á Gaza. Netanjahú hefur sagst staðráðinn í að tryggja að Hamas afhendi alla gísla samkvæmt ákvæðum vopnahléssamkomulagsins og varnarmálaráðherrann Israel Katz hótaði að leggja til atlögu að Hamas að nýju bregðist þeir skyldum sínum. Forvígismenn Hamas hafa sagt nær ógjörning að finna lík undir rústum húsa og í hrundum neðanjarðargöngum á Gaza. Ghazi Hamad, háttsettur Hamas-liði, sagði Katz beita óþolandi þrýstingi með hótunum sínum. Leitin að líkunum væri flókin og tímafrek en Hamas stæði við sitt. Rústabjörgunarsveit frá Tyrklandi bíður enn leyfis frá ísraelskum stjórnvöldum til að fara inn á Gaza, óljóst er hvenær það fæst, mögulega á sunnudag samkvæmt heimildarmönnum AFP-fréttaveitunnar innan Hamas. AFP hefur eftir tyrkneskum embættismanni að hlutverk sveitarinnar sé bæði að finna lík gíslanna og Palestínumanna undir rústunum. Almannavarnir á Gaza segja að hátt í þrjú hundruð lík Palestínumanna hafi þegar verið grafin undan rústunum. Fulltrúi Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna segir að þegar hafi 3.000 tonn af matvælum verið flutt inn á Gaza en áréttar að langan tíma taki að snúa hungursneyðinni þar við. Opna þurfi allar leiðir inn á svæðið til að flýta fyrir því.