Stjórnin vill að Hæstiréttur aflétti banni við beitingu þjóðvarðliðs í Chicago

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur leitað fulltingis Hæstaréttar við að aflétta lögbannsúrskurði áfrýjunardómstóls gegn beitingu þjóðvarðliðs í Chicago, þriðju stærstu borg landsins. Það var gert að kröfu borgaryfirvalda og Illinois-ríkis. Donald Trump forseti staðhæfir að liðsins sé þörf til að berjast gegn glæpum og vernda fulltrúa innflytjendastofnunar og opinberar byggingar í borginni. Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnin leitar til hæstaréttar í slíku máli en þar sitja sex íhaldssamir dómarar á móti þremur frjálslyndari. Áfrýjunardómstóll staðfesti lögbann héraðsdómara á fimmtudag með þeim rökum að stjórnvöld hefðu ekki sýnt fram á að það neyðarástand ríkti í Chicago sem réttlætti beitingu herliðs. Hvorki væru merki um uppreisn né uppreisnartilraun í Illinois, þrátt fyrir róstur, sagði í úrskurðinum. John Sauer ríkislögmaður segir fulltrúa innflytjendastofnunar búa við stanslausa ofbeldisógn, að dómstóllinn fótumtræði valdmörk forsetans og ógni að þarflausu öryggi opinberra starfsmanna og bygginga. Stjórnvöld í Oregon hafa einnig krafist lögbanns á að þjóðvarðliðinu verði beitt í borginni Portland, þar sem forsetinn segir allt standa í ljósum logum vegna mótmæla.