Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels segir að venesúelski stjórnarandstæðingurinn og friðarverðlaunahafinn Maria Corina Machado hafi í símtali fagnað baráttu hans gegn alræðisöflum. Machado er í færslu ráðuneytisins á samfélagsmiðlinum X sögð hafa fagnað einbeittum ákvörðunum og aðgerðum Netanjahús í Gaza-stríðinu og því samkomulagi sem náðist um frelsun gísla Hamas. Maria Corina Machado sjálf nefndi hvorki Gaza né Ísrael í varfærnislega orðaðri yfirlýsingu á X. Hún sagði íbúa Venesúela vita að mikið hugrekki, styrk og siðprýði þurfi til standa í vegi fyrir að alræðisöfl nái fótfestu. „Rétt eins og við berjumst fyrir frelsi og lýðræði í Venesúela verðskulda allar þjóðir Mið-Austurlanda framtíð byggða á myndugleika, sanngirni og von - ekki ótta,“ bætti Machado við. Hún gagnrýndi Íransstjórn harðlega, sem styddi alræðisstjórn Nicolasar Maduro og veitti hryðjuverkasamtökum fulltingi, Hamas, Hezbollah og Húta í Jemen. Gustavo Petro Kólumbíuforseti hefur gagnrýnt Netanjahú harðlega og lýsti í síðustu viku efasemdum um réttmæti þess að veita Machado friðarverðlaun Nóbels. Hún hafi lengi leitað stuðnings Netanjahús og Ísraelsstjórnar við að koma Maduro frá völdum. Venesúela hefur ekki átt í stjórnmálasambandi við Ísrael síðan 2008 þegar Hugo Chavez, forveri Maduros, sleit því í mótmælaskyni við stríðið sem þá geisaði á Gaza.