Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur mildað refsingu Georges Santos, Repúblikanaþingmannsins fyrrverandi, sem í apríl var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fjársvik og auðkennisþjófnað. Santos hefur setið í fangelsi síðan í júlí og forsetinn krefst þess að honum verði umsvifalaust sleppt. „George hefur setið í einangrun löngum stundum og mátt þola hræðilega illa meðferð,“ skrifaði Donald Trump í löngum pósti á Truth Social. Því hafi hann undirritað erindisbréf um refsilækkun Santosar, sem ætíð hafi staðið með Repúblikanaflokknum af hugrekki og staðfestu. Mildun refsingar er ólík náðun að því leyti að upphaflegur dómur stendur en afplánun er stytt. Santos viðurkenndi að hafa stolið auðkenni fjárhagslegra bakhjarla sinna, notað greiðslukort þeirra, fært peninga í kosningasjóð sinn í leyfisleysi, dregið sér fé úr sjóðnum og nýtt til einkanota. Rannsókn siðanefndar þingsins leiddi í ljós að féð hafi hann meðal annars notað til að greiða fyrir botox-meðferðir, aðgang að klámsíðum, dýr ferðalög og ítalskar munaðarvörur. Santos var rekinn úr fulltrúadeild þingsins í árslok 2023, ári eftir að hann náði kjöri, fyrir að ljúga til um starfsferil sinn, menntun, trú og jafnvel hvað hann héti. Hann varð þá þriðji þingmaðurinn til að verða rekinn úr deildinni frá lokum borgarastyrjaldarinnar. Þau örlög eru einkum ætluð föðurlandssvikurum og dæmdum glæpamönnum.