Öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum voru efst á baugi fundar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Guiseppe Cavo Dragone, formanns hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, í gær. Þau ræddu einnig aukið framlag Íslands innan bandalagsins og stuðning við varnir Úkraínu gegn innrás Rússa, að því er segir á vef Stjórnarráðsins . Ítalski aðmírállinn Dragone er æðsti embættismaður hermálastarfsliðs NATÓ og ráðgjafi framkvæmdastjórans Marks Rutte. Hann er einnig talsmaður bandalagsins um hernaðarleg málefni. Í þessari fyrstu heimsókn Dragones til Íslands munu embættismenn utanríkisráðuneytisins kynna honum varnarbúnað Íslands. Hann mun einnig ávarpa Hringborð norðurslóða í Hörpu. Dragne stýrir starfi hermálanefndar sem veitir fastaráði bandalagsins ráðgjöf um hvernig best megi mæta helstu öryggisáskorunum á hverjum tíma. Í hermálanefndinni eiga sæti hermálafulltrúar úr fastanefndum bandalagsríkjanna 32, þar á meðal borgaralegur fulltrúi Íslands.