Þótt þýskum stjórnvöldum þyki brýnt að fjölga í hernum hafa hugmyndir um einhvers konar „herskyldu-lottó“ valdið deilum innan ríkisstjórnarinnar og óróa meðal ungs fólks. Það yrði eins konar handahófskennd herkvaðning með valdboði. Varnarmálaráðherranum og jafnaðarmanninum Boris Pistorius var ekki skemmt þegar bandalag kristilegu flokkanna í stjórninni lagði til að sú aðferð yrði hluti nýrrar hernaðarlöggjafar sem er í smíðum. Það væri letileg málamiðlun. Norbert Röttgen, þingmaður Kristilegra demókrata, sagði ráðherrann setja mikilvægt frumvarp í algert uppnám. Hann hélt því fram að brýnt væri að tryggja gegnsæi með því að fella ákvæði um herskyldu inn í lögin núna í stað þess að fresta ákvörðun um það til framtíðar. Kanslarinn Friedrich Merz hefur heitið því að byggja upp öflugasta her Evrópu vegna þeirrar spennu sem ríkir gagnvart Rússum og efasemda um hernaðarstuðning Bandaríkjanna. Herir beggja þýsku ríkjanna treystu á herskyldu á tímum kalda stríðsins til að byggja um öflugt herlið, en eftir fall Berlínarmúrsins og sameiningu ríkjanna var mjög dregið úr styrk hersins. Herskylda var aflögð í Þýskalandi árið 2011 og herinn hefur lengi reynt að laða sjálfboðaliða að og bæta ímynd sína með átaki á samfélagsmiðlum. Patrick Sensburg, sem fer fyrir Varaliðssamtökum sambandshersins, segir „lottóið“ neyða fjölda ungs fólks til að draga stutta stráið. Mörgu fólki um tvítugt og foreldrum þeirra finnst það sama en aðrir segja herþjálfun geta verið holla lífsreynslu. Þjóðverjar hafa í ljósi sögunnar vantreyst mörgu því sem tengist hernaði og gagnrýnendur hafa sagt að handahófskennd herskylda auki hvorki á traust né væntumþykju fyrir hernum.