Stefán Ingvar Vigfússon er grínisti og kattapabbi sem er að undirbúa sig fyrir sýningu þar sem hann segir brandara um ketti í 60 mínútur. Í uppistandi hans kemur ekkert annað fram nema brandarar um ketti og einn brandari fyrir ketti. Stefán kíkti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 og sagði frá sýningunni. „Ég vil að áhorfendum finnist þetta fyndið og ég býst ekki við að það verði margir kettir á svæðinu.“ Skírð á eins árs afmælinu og fermd tveggja ára En sem fyrr segir verður einn brandarinn sérhannaður til að skemmta ferfætlingunum sjálfum. „Ég þarf að útskýra af hverju þessir brandarar virka fyrir ketti og hef verið að stúdera heimspekilegar rætur grínsins, kattasálfræði og líffræði til að smíða þessa brandara.“ Sjálfur á Stefán frægan kött, en kyn hans er nokkuð á reiki. Hann heitir Lísa og það varð fréttamál þegar hún var fermd að húmanískum sið í Tjarnarbíói. „Við skírðum hana og fengum athafnastjóra frá Siðmennt til þess. Fermdum hana ári seinna.“ Hljóp í fangið á Páli Óskari Auk þess lék hún í áramótaskaupinu fyrir tveimur árum. „Hún lék kött sem Páll Óskar hélt á og hún var virkilega sannfærandi. Það var alls konar ljósabúnaður og læti í stúdíóinu og hún fríkaði út en Palli kom og spjallaði við hana og hún hljóp í fangið á honum,“ segir Stefán. Það séu engar ýkjur að kalla Pál Óskar kattahvíslara. „Hann sagði: Ég elska ketti og þeir koma til mín, og það er alveg rétt hjá honum.“ Kettir geðveikt fyndnir Stefán hefur verið uppistandari í um sjö ár og velt því fyrir sér hver sé besta leiðin til að lokka fólk á uppistand. Það var í apríl sem hann fékk þá hugmynd að segja brandara um ketti og fór að semja þá. „Mér finnst kettir geðveikt fyndir. Við eigum Lísu og erum með fósturkött sem heitir Nóra og er með áfallastreituröskun eftir að Reykjavíkurborg rændi henni og týndi henni.“ Götukettir hafa séð ýmislegt Eigendur Nóru eru leikararnir Guðmundur Felixson og Þuríður Blær. Þau eru búsett erlendis og Nóra því í fóstri hjá Stefáni og Hófí kærustu hans. Nóra komst líkt og Lísa í fréttir en tilefnið var allt annað. Þá höfðu nágrannar kvartað yfir henni, dýravelferðarsvið Reykjavíkur brugðist við með því að taka hana en hún slapp úr bifreið þeirra og týndist í Laugardal. Hún fannst ekki fyrr en þremur vikum síðar og síðan hefur hún verið taugaveikluð. „Götukettir, they’ve seen some shit,“ segir Stefán um lífsreynsluna. Var sagt að hún væri læða Stefán og Hófí töldu sig eiga aðra læðu þegar þau tóku Nóru í fóstur, en það kom í ljós að svo var ekki. „Við ættleiddum Lísu og var sagt að þetta væri læða. Við förum til dýralæknis sem kíkir undir Lísu og segir þetta er svo sannarlega læða,“ segir Stefán. Þegar kom að því að gelda hana þá kom annað í ljós. „Þá er allt í einu kominn pungur. Mér finnst þetta skrýtið en ég hef aldrei átt gæludýr, er alinn upp í Vesturbæ og foreldrar mínir eru ekki mikið dýrafólk. Ég vissi ekki hvort þetta væri bara eitthvað sem læður fá, læðudúskar kannski, en svo förum við aftur til dýralæknis sem segir: Hann er með pung.“ Æsist í kattaleik og lemur manneskjur Lísa er þremur árum yngri en Nóra og þær hafa búið saman í eitt og hálft ár. Stefán segir að nú sé kært á milli þeirra en stundum leiki þær sér af slíkri innlifun að Nóra missi stjórn á sér og taki það út á heimilisfólki. „Svo fríkar Nóra út, hoppar upp á borð og lemur mig eða Hófí kærustuna mína og hvæsir svo á Lísu. Mér finnst þetta mjög fyndin athöfn.“ „Hann er með pung,“ var niðurstaða dýralæknis þegar Stefán Ingvar Stefánsson og Hólmfríður María Bjarnadóttir fóru með læðuna sína í geldingu. Stefáni er sama hvers kyns kötturinn er, hún er skírður og fermdur hefðarköttur og mjög fyndin. Framundan eru fjórar sýningar, þrjár í október og ein í nóvember og fara þær fram í Tjarnarbíói.