Fimmtíu ár eru síðan íslenska efnahagslögsagan var færð út í 200 sjómílur. Reglugerð þess efnis tók gildi 15. október 1975. Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra undirritaði hana þremur mánuðum fyrr. Þetta var lokaskrefið og það stærsta í útfærslu efnahagslögsögunnar. Í hönd fór þriðja þorskastríðið við Breta sem lauk 1. júní 1976. Þegar reglugerðin tók gildi stækkaði íslensk efnahagslögsaga um 350%, úr 216 þúsund ferkílómetrum í 758 þúsund. „Með þessum hætti er væntanlega stigið lokaskrefið í stækkun íslensku fiskveiðilögsögunnar. Markviss barátta liggur til grundvallar útfærslu okkar í 200 mílur. Íslendingum hefur löngum verið ljóst að nýting fiskimiðanna umhverfis landið er forsenda afkomu landsmanna. Því er eðlilegt að stækkun fiskveiðilögsögunnar hefur verið höfuðbaráttumál landsmanna áratugum saman,“ sagði Geir Hallgrímsson forsætisráðherra 14. október 1975. Í spilaranum hér fyrir neðan er viðtal við Geir um 200 sjómílna efnahagslögsöguna frá 15. október 1975. Hálf öld er síðan efnahagslögsaga Íslands var færð út í 200 sjómílur. Það var lokahnykkurinn í stækkun lögsögunnar sem hófst 1952. Guðni Th. Jóhannesson rifjaði upp baráttuna um fiskimiðin í Morgunvaktinni á Rás 1. „Semjum til sigurs eða berjumst til sigurs“ Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði og fyrrverandi forseti Íslands, rifjaði sögu efnahagslögsögunnar upp í Morgunvaktinni á Rás 1 í tilefni dagsins. „Ég man að við krakkarnir í skólanum fögnuðum eins og sigurmarki í landsleik þegar tókst að klippa og fréttir bárust af því í útvarpinu að þeim á Tý, Ægi, Óðni, Þór eða hinum sem komu við sögu hefði tekist að halaklippa togara,“ segir Guðni. Fyrirsögnin á forsíðu Morgunblaðsins 15. október 1975 var höfð eftir Geir Hallgrímssyni. Fiskveiðilögsagan 200 mílur: Semjum til sigurs – eða berjumst til sigurs. „Þessi orð lýsa vel afstöðu Geirs Hallgrímssonar í landhelgismálum. Semjum til sigurs eða berjumst til sigurs. Annað þekkt slagorð fyrr á tíð er svipað, sem Magnús Kjartansson sósíalistaleiðtogi og ritstjóri Þjóðviljans um langa hríð, þrumaði yfir mannfjöldann á mótmælafundi í byrjun september 1958: Við semjum ekki við Breta, við sigrum þá,“ segir Guðni. Öldum saman voru engar beinar reglur um landhelgi ríkja „Undirbúningur að lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins var þegar hafinn fljótlega eftir lýðveldisstofnun og lög um þessi efni voru sett 1948. Landhelgissamningi þeim er Danir höfðu gert við Breta árið 1901 og heimilaði þeim veiðar allt að þremur mílum frá ströndum Íslands var sagt upp 1949 og féll úr gildi 1951,“ sagði Geir 14. október 1975. Guðni segir að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið einhliða að stækka lögsöguna. „Við syntum ekki á móti straumnum en við fórum kannski hraðar og öflugar en Bretum sérstaklega líkaði. Þess vegna kom til þessara miklu átaka trekk í trekk.“ Öldum saman hafi ekki verið beinar reglur um landhelgi ríkja en þó verið til viðmið. Landhelgi ríkja skyldi ekki vera meira en þrjár eða í mesta lagi fjórar mílur. Jafnvel var miðað við að hún næði ekki lengra en hægt væri að skjóta úr fallbyssu frá strandvirki út á haf. „Bretar réðu ríkjum á úthöfunum og voru heimsveldi og flotaveldi alveg fram á síðustu öld. Þá var talað um Bretafrið. Í krafti þess gerðu Danir, fyrir okkar hönd ef svo má segja, landhelgissamning við Breta 1901 um þrjár sjómílur umhverfis landið.“ Bandaríkjaforseti reið á vaðið Harry S. Truman forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir um miðja 20. öld að Bandaríkin gerðu tilkall til eða eignuðu sér landgrunnið umhverfis Bandaríkin og réttinn til að stjórna fiskimiðunum þar fyrir innan. „Til að gera langa sögu mjög stutta stökkva leiðtogar í ríkjum Rómönsku-Ameríku á þennan vagn og eru farnir að gera tilkall til allt að 200 mílna efnahagslögsögu þarna um miðbik síðustu aldar. Þá erum við að berjast fyrir því að fara úr þremur í fjórar og það gerum við svo skref fyrir skref. Úr fjórum í tólf. Úr tólf í fimmtíu árið 1972. Svo þennan dag fyrir réttri hálfri öld gengur í gildi 200 mílna efnahagslögsaga.“ Þar með var ekki öll sagan sögð. „Í sinni tærustu mynd er sagan sú að við höfðum þetta eina markmið og náðum því gegn vilja miklu stærri velda, en sagan er miklu, miklu flóknari. Geir Hallgrímsson átti svo sannarlega eftir að komast að raun um það.“ Hægt er að hlusta á viðtalið við Guðna Th. Jóhannesson á Morgunvaktinni á Rás 1 í spilara RÚV hér fyrir neðan. Viðtalið hefst þegar 28 mínútur eru liðnar af þættinum. Hálf öld er síðan efnahagslögsaga Íslands var færð út í 200 sjómílur. Það var lokahnykkurinn í stækkun lögsögunnar sem hófst 1952. Guðni Th. Jóhannesson rifjaði upp baráttuna um fiskimiðin í Morgunvaktinni á Rás 1.