Einni af 16 kröfum verið svarað frá síðasta kvennaverkfalli

Á sjötta tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks blása til kvennaverkfalls á ný þann 24. október. Á blaðamannafundi í vikunni voru kröfur kvenna og kvára lagðar fram við styttu Ingibjargar H. Bjarnasonar, fyrstu konunnar sem tók sæti á Alþingi. „Þetta er til að minna á kröfurnar og við erum að kalla eftir því að þeim sé svarað og orðið við þeim,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins og ræðumaður á blaðamannafundi kvennaárs. Kröfurnar fyrst lagðar fram 2023 „Við vorum hundrað þúsund konur og kvár sem komu saman fyrir tveimur árum og svo var svolítið stóra spurningin, hvað svo?,“ segir Linda. Kröfurnar voru upprunalega lagðar fram á útifundi Kvennaverkfallsins árið 2023. Lagðar voru fram kröfur um breytingar sem framkvæmdastjórn Kvennaárs setti síðar fram í formi aðgerða sem grípa þarf til, afhenti stjórnvöldum og gaf þeim eitt ár, til 24. október 2025, til að hrinda í framkvæmd. Í þeim felst krafa um lagabreytingar, aðgerðir gegn ofbeldi, launamun kynjanna, til að bæta stöðu mæðra og að útrýma mismunun á vinnumarkaði. Alls eru kröfur kvenna 16 og má lesa meira um þær hér . Einni kröfu af þeim 16 sem lagðar voru fram í síðasta kvennaverkfalli 2023 hefur verið svarað af stjórnvöldum. Konur frá mörgum af þeim 60 samtökum sem standa að kvennaverkfallinu í ár lögðu kröfurnar fram við Alþingi í vikunni. „Því miður hefur einungis einni kröfu verið svarað af þeim sem settar hafa verið fram sem eru vonbrigði,“ segir Linda Dröfn. Sú krafa er að unnið sé að breytingum á nálgunarbanni svo auðveldara sé að sækja um slíkt bann og að notuð séu ökklabönd. W.O.M.E.N Samtök kvenna af erlendum uppruna Á fundinum var einnig Maru E. Alemán sem situr í stjórn samtaka kvenna af erlendum uppruna. Samtökin voru stofnuð árið 2003 og hafa tekið þátt í kvennafrídeginum síðan 2005. „Svo það eru 20 ár síðan konur af erlendum uppruna hafa notað rödd sína og tekið þátt í kvennaverkfallinu,“ segir Maru og bendir á að konur af erlendum uppruna takist á við margvíslegar áskoranir í íslensku samfélagi. Einni kröfu af þeim 16 sem lagðar voru fram í síðasta kvennaverkfalli 2023 hefur verið svarað af stjórnvöldum. Konur frá mörgum af þeim 60 samtökum sem standa að kvennaverkfallinu í ár lögðu kröfurnar fram við Alþingi í vikunni. „Konur af erlendum uppruna glíma við áskoranir í samfélaginu, samanborið við aðrar íslenskar konur. Til að mynda eru þær berskjaldaðri fyrir ofbeldi og rannsóknir sýna að um 44 prósent þeirra þéna undir 499 þúsund krónum á mánuði. Íslenskan er líka ein mesta hindrunin við að aðlagast samfélaginu og skorið hefur verið niður í fjárveitingum til innflytjenda til að læra íslensku. Við berum þriðju og fjórðu vaktina sem oft fer óséð. Það er aukin byrði sem við berum. Ég get nefnt margt annað eins og fordóma, útskúfun og rasisma. Við glímum við misjafnar áskoranir en við erum vaxandi hópur á Íslandi. Við erum hér til að vera, flest okkar, og viljum vera hluti af samfélaginu. Hér eigum við heimili og börn í skólum, sem eru íslensk og hluti af samfélaginu. Þau glíma líka við þessar áskoranir.“ Eiga erfitt með að leggja niður störf Ásamt þessu sé mikilvægt að minnast þess að konur af erlendum uppruna eigi margar erfitt með að leggja niður störf. „Algjörlega og við viljum ná til eins margra þeirra og hægt er svo þær geti heyrt um verkfallið og mætt,“ segir Maru. Hún hvetur vinnuveitendur sérstaklega til að huga að stöðu kvenna sem vinna í hreingerningu, þjónustu og í fiskverkun og gera þeim kleift að mæta.