Stjórnvöld í Íran segjast ekki lengur bundin af takmörkunum kjarnorkusamkomulagsins frá árinu 2015, en samningurinn rann formlega út í dag, tíu árum eftir samþykkt hans. Frá deginum í dag eru „öll ákvæði [samkomulagsins], þar á meðal takmarkanir á kjarnorkuáætlun Írans og skyld kerfi álitin útrunnin“ segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti landsins. Kjarnorkusamkomulagið frá 2015 var samningur milli Írans annars vegar og Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands, Rússlands, Kína og ESB hins vegar. Íranir samþykktu þá að draga stórlega úr kjarnorkuáætlun sinni, leyfa eftirlit Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og hætta við þróun kjarnorkuvopna. Í staðinn voru efnahagsþvinganir gegn landinu afnumdar. Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin úr samkomulaginu árið 2018. Þótt Íranir hafi ekki formlega sagt sig frá samkomulaginu segja stjórnvöld á Vesturlöndum að ríkið hafi ekki staðið við skilyrði samkomulagsins. Til að mynda hafa Íranir frá 2021 takmarkað eða hreinlega lokað fyrir aðgang eftirlitsmanna Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar (IAEA) að sumum kjarnorkuverum. Refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna, sem hafði verið aflétt 2015, tóku gildi á ný í síðasta mánuði eftir að Bretland, Frakkland og Þýskaland virkjuðu samningsákvæði.