„Við erum stolt af því að vera partur af þeirri starfsemi sem unnin er á Bjargey,“ segir í yfirlýsingu sem starfsfólk Bjargeyjar gaf út í dag. Bjargey er meðferðarheimili í Eyjafirði fyrir stúlkur og kynsegin einstaklinga með flókinn vanda á aldrinum 13 til 18 ára. Fyrrverandi starfsfólk meðferðarheimilisins hefur sagt starfsemina reiðulausa og lýst öryggisbrestum og faglegu vanhæfi innan stofnunarinnar. Vísir greindi fyrst frá. Óttast ekki afleiðingarnar Þá hefur ung stúlka sem var skjólstæðingur á Bjargey þegar hún var 14 ára greint frá því að nánast engar hömlur hafi verið á fíkniefnaneyslu innan heimilisins. Að koma með fíkniefni inn á meðferðarheimilið hafi verið auðvelt. Stúlkurnar hafi ekki óttast afleiðingar þess að koma með og neyta fíkniefna á Bjargey. Refsingin hafi verið sú að símar þeirra hafi verið gerðir upptækir í nokkra daga. Stúlkan segir stúlkur oft yfirgefa meðferðarheimilið í verra ástandi en þær koma. Starfið faglegt Í yfirlýsingunni segist starfsfólk Bjargeyjar vilja koma á framfæri að umfjöllun fjölmiðla um Bjargey endurspegli ekki upplifun þeirra. „Við stöndum í þeirri trú að meðferðarstarfið sé faglegt og sinnt af alúð,“ segir í yfirlýsingunni. Markmið þeirra sé að veita skjól og öruggt umhverfi fyrir skjólstæðinga. „Við erum þakklát fyrir hvort annað og okkar yfirmenn sem hafa tekið málinu af algjörri yfirvegun og fagmennsku. Við erum einnig þakklát fyrir þau frábæru ungmenni sem við fáum að starfa með á hverjum degi, þau eru ástæða þess að við vinnum þetta starf,“ segir að lokum.