Yfir 17.000 manns eru virkir í glæpagengjum í Svíþjóð og áætlað er að þúsundir til viðbótar tengist gengjunum. Yfirvöld telja þó að aðgerðir gegn þeim séu farnar að bera árangur. Lögregla í Svíþjóð hefur síðustu ár staðið í ströngu við að rannsaka sprengjuárásir, morðtilraunir og fíkniefnasölu. Þá hafa börn verið ginnt til að fremja glæpi gegn greiðslu. Samkvæmt nýlegri kortlagningu ríkislögreglustjóra Svíþjóðar eru 17.500 manns virkir meðlimir í glæpagengjum þar í landi. Til viðbótar eru 50.000 manns sem tengjast gengjunum óbeint. „Þetta eru allt of margir. Þetta eru risastórir hópar, bæði virkir félagar og með tengsl. Við getum sagt að eftir samanburð við nýjustu tölur, einu og hálfu eftir könnunina, virðist þeim ekki hafa fjölgað,“ segir Petra Lund, ríkislögreglustjóri Svíþjóðar. Dómsmálaráðherra Svíþjóðar, Gunnar Strömmer, segir kortlagninguna staðfesta að glæpahópar séu útbreitt vandamál. Fjöldi skotárása þrefaldaðist frá 2012 til 2022. Ráðherrann bendir þó á að síðustu þrjú ár hafi þeim fækkað. „Ljóst er að þetta er merki um að ný verkfæri, aðferðir og úrræði séu farin að hafa áhrif. Við erum á réttri braut þótt langt sé í land.“ Af þeim sem skilgreindir eru virkir glæpamenn innan hópanna er 81 prósent með sænskan ríkisborgararétt, 8 prósent eru með ríkisborgararétt í Svíþjóð og í einu öðru ríki. 10 prósent eru aðeins með erlendan ríkisborgararétt. 17.500 manns taka virkan þátt í starfsemi glæpagengja í Svíþjóð. Ríkislögreglustjórinn segir þetta allt of marga. Dómsmálaráðherrann segir aðgerðir gegn glæpagengjum farnar að bera árangur. Skotárásum hefur fækkað. Ríkislögreglustjórinn segir ekki nóg að herða refsingar til að fækka afbrotum glæpagengja. „Það eru önnur embætti sem sinna glæpaforvörnum og okkur þykir mikilvægt að koma í veg fyrir að börn og ungt fólk fari inn í þetta umhverfi og við teljum nauðsynlegt að grípa snemma inn í, sem er aðallega á ábyrgð sveitarfélaga, skóla og auðvitað foreldranna.“