Stærsta stéttarfélag Portúgals, CGTP, tilkynnti í dag að efnt yrði til allsherjarverkfalls þann 11. desember til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum ríkisstjórnarinnar á atvinnulögum. Tiago Oliveira, aðalritari CGTP, kallaði breytingarnar „eina mestu árás sem gerð hefur verið á verkafólk“ í Portúgal. Luís Montenegro forsætisráðherra segir breytingarnar ætlaðar til að auka framleiðni og sveigjanleika á atvinnumarkaðinum. Ríkisstjórnin vill breyta rúmlega 100 ákvæðum atvinnulaga, meðal annars til að auðvelda uppsagnir og stytta sorgarleyfi kvenna sem hafa misst fóstur. Einnig er áætlað að með breytingunum verði atvinnurekendum gert auðveldara að bjóða sveigjanlegan vinnutíma. „Ef breytingarnar eru samþykktar verður það afturför í lífi okkar allra,“ sagði Oliveira á fjöldasamkomu í Lissabon. Þúsundir mótmælenda gengu um götur borgarinnar og kröfðust þess að hætt yrði við breytingarnar.