Tengdasonur Trumps fær að byggja lúxushótel á sögulegum rústum

Þing Serbíu hefur samþykkt lög sem heimila fasteignaþróunarfélagi í eigu Jareds Kushner, tengdasonar Donalds Trump Bandaríkjaforseta, að byggja lúxushótel og íbúðabyggingar á rústum höfuðstöðva júgóslavneska hersins í Belgrad. Höfuðstöðvarnar, sem eru staðsettar í miðborg Belgrad, eyðilögðust að hluta í loftárásum Atlantshafsbandalagsins árið 1999. Margir Serbar líta á bygginguna sem tákn um andspyrnu þjóðarinnar gegn Bandaríkjunum, auk þess sem byggingin er talin táknræn fyrir júgóslavneska byggingarlist á 20. öld. Hugmyndin um að rífa það sem eftir er af byggingunni til að rýma til fyrir bandarísku lúxushóteli hefur því farið öfugt ofan í suma. Frumvarp til að heimila framkvæmdir á lóð gömlu höfuðstöðvanna var samþykkt á þingi með 130 atkvæðum gegn 40 þrátt fyrir götumótmæli við þinghúsið. Zdavro Ponos, fyrrum leiðtogi í serbneska hernum, sem er nú þingmaður fyrir stjórnarandstöðuna, sagði ríkisstjórnina hyggja á að útrýma þjóðartákni með framkvæmdunum. „Með samningnum sem þið hafið gert við mikilvægasta tengdason hnattarins hafið þið skuldbundið ykkur til að rífa þetta niður og hreinsa burt á kostnað skattgreiðenda Serbíu,“ sagði Ponos. Serbnesk stjórnvöld tóku rústir höfuðstöðvanna af lista yfir vernduð mannvirki í fyrra og skrifuðu undir 99 ára leigusamning við Affinity Global Development, fasteignaþróunarfélag Kushners. Verkefnið tafðist hins vegar þegar serbneskir saksóknarar hófu rannsókn á því hvort gögn sem notuð voru til að taka bygginguna af verndarlista hefðu verið fölsuð. Aleksandar Vučić forseti Serbíu hefur fullyrt að rannsókninni hafi verið hleypt af stokkunum að beiðni erlendra aðila „til að koma í veg fyrir að Serbía bæti samband sitt við Trump-stjórnina“. Í viðtali við fréttastofu BBC í júní sagði Vučić jafnframt nauðsynlegt að landið varpaði af sér byrðinni frá árinu 1999.