Friðarviðræður Pakistans og Afganistans út um þúfur

Friðarviðræðum milli Afganistans og Pakistans lauk án niðurstöðu í Tyrklandi í gær. Talibanastjórn Afganistans kenndi „óábyrgri og ósamvinnuþýðri“ nálgun Pakistana um endalok viðræðanna. „Í viðræðunum reyndi Pakistan að varpa allri ábyrgð á öryggi sínu yfir á afgönsku ríkisstjórnina en gaf hvorki til kynna neinn vilja til að axla ábyrgð á öryggi Afganistans né sínu eigin,“ sagði Zabihullah Mujahid, talsmaður Talibana. Mujahid áréttaði að Afganir vildu ekki óöryggi í heimshlutanum og að þeir hefðu ekki áhuga á stríði. „En ef stríð brýst út eigum við rétt á að verja okkur.“ Þrátt fyrir endalok viðræðnanna sagði Mujahid að vopnahlé milli ríkjanna yrði áfram virt. Ríkin sömdu um vopnahlé í október eftir mannskæðustu átök á landamærum þeirra í mörg ár. Pakistan hefur sakað Talibanastjórnina í Afganistan um að halda hlífiskildi yfir pakistönskum systursamtökum sínum sem hafa framið hryðjuverk innan Pakistans. Sameinuðu þjóðirnar gáfu út skýrslu fyrr á þessu ári þar sem fullyrt var að pakistanskir Talibanar (Tehreek-e-Taliban Pakistan) hlytu verulegan stuðning frá Talibanastjórninni í Kabúl. Khawaja Asif, varnarmálaráðherra Pakistans, staðfesti í viðtali við fréttastöðina Gao að vopnahléð yrði virt nema að Afganir rjúfi það. „Það er engin áætlun eða von um neina fjórðu umræðulotu,“ sagði Asif. „Hlé hefur verið gert á viðræðunum um óákveðinn tíma.“ Á fimmtudaginn brutust til skamms tíma út átök við landamærin á ný. Afganskir embættismenn greindu frá því að fjórir almennir borgarar hefðu verið drepnir og fjórir til viðbótar hefðu særst.